29.02.1932
Efri deild: 15. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 74 í D-deild Alþingistíðinda. (3224)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jón Þorláksson:

Mér þótti undarlegt að hlusta á það, sem hæstv. ráðh. sagði um tollalöggjöfina að því er snertir innlendan iðnað. Hann lýsti því, að hún verkaði stundum sem verndartollur fyrir útlendan iðnað, og nefndi þar til glugga og hurðir, báta og bundnar bækur. Hæstv. ráðh. minntist ekki á það, að á síðasta þingi voru afgr. l., sem heimila stj. að ráða bót á þessu. Og hafi þessi l. ekki náð tilgangi sínum, er það af því, að heimild þeirra hefir ekki verið notuð. Mér þótti helzt að heyra á því, sem hæstv. ráðh. sagði, að í höndum stj. sæti allt við sama og var áður en þessi heimildarl. voru sett. Mér þótti þetta undarlegt í ræðu hans og vænti, að það komi fram upplýsingar um það hér í d., hvort landsstj. hefir sýnt það nenningarleysi að vanrækja að framkvæma heimild þessara laga.

Að öðru leyti vil ég henda á það, að þessi till., sem kemur frá hæstv. stj., er hnefahögg framan í iðnaðarstétt landsins, þar sem till. gengur alveg framhjá því, sem þó er vitanlegt, að svo að segja allur iðnrekstur hér á landi hefir bundizt í skipulagðan félagsskap iðnaðarmannanna sjálfra. Maður skyldi því ætla, þegar landsstj. kemur fram og segist nú ætla að fara að sinna þessum málum meira en verið hefir, að till. hennar bæri þess vott, að hún vissi, að iðnaðarmenn hafa unnið þennan atvinnuveg upp án nokkurs atbeina þess opinbera, og að þeir hafa sjálfur skipulagt félagsskap um sín mál. Það er því næsta undarlegt, að í uppástungunum um það, hverjir skuli tilnefna menn í mþn., skuli alveg vera gengið framhjá þeim félagsskap, sem iðnaðarmenn hafa komið upp og hafa með sér og tekur yfir allan iðnrekstur í landinu, eða svo að segja, því að þeir, sem eru utan þeirra samtaka, munu vera sárafáir.

Ég læt mér nú þetta nægja við þennan fyrri hl. umr., og geri ég ráð fyrir, að till. verði vísað til n. og að mér gefist þá tækifæri til frekari aths.