29.02.1932
Efri deild: 15. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í D-deild Alþingistíðinda. (3225)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég gerði fullkomlega ráð fyrir því, að hv. 1. landsk. léti falla þau orð, sem hann lét falla um fyrri hl. till., um endurskoðun tollalöggjafarinnar að því er iðnaðinn snertir. Mér kom það því ekki á óvart, að hann hefir komið inn á þetta nú. Hugsunin, sem liggur á bak við till., er að styðja íslenzkan iðnað. Eins og kunnugt er, bar hann fram á síðasta þingi till. um að íþyngja innlendri framleiðslu. Hv. þm. lagði þá til, í sambandi við framlenging verðtollsins, að fella niður tolla á mörgum vörutegundum, sem framleiddar eru í landinu. Það er því í góðu samræmi við fyrri framkomu þessa hv. þm. í þessu máli í fyrra, að hann nú rekur tærnar í þau ákvæði till., sem miða að því að styðja innlenda framleiðslu. Þá till., sem hv. þm. bar fram í fyrra, bar hann að vísu ekki fram af hálfu síns flokks, en hún sýnir stefnu hans í þessum málum. Mér kom því ekkert á óvart, þó að till., sem fer fram á að styðja íslenzkan iðnað, yrði fyrir ónáð hans og að hann veiti henni andstöðu.

Að öðru leyti mun ég geyma mér að tala um þetta til síðari umr. þessa máls.