11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í D-deild Alþingistíðinda. (3230)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég get fellt mig við það, hvaða afgreiðslu hv. n. hefir haft á þessari till., og mælt með, að brtt. á þskj. 306 verði samþ.

Eins og hv. frsm. gat um og hv. 1. þm. Reykv. líka, er það atriðið um endurskoðun iðnaðarlöggjafarinriar, sem iðnráðið og n. taldi, að óþarfi væri, að kæmi fram í till.

Ég vil benda á, að í bréfi því, sem fylgir sem fskj. með till., er það fyrsta atriðið, sem Iðnaðarmannafélagið bendir á, að þurfi að athuga og endurbæta, það eru endurbætur á iðnaðarlöggjöfinni frá 1926, og það var því eðlilegt, að ég tæki það atriði upp í till.

Ég get fallizt á það orðalag hv. n., að væntanleg mþn. eigi að athuga mál iðju og iðnaðar; það er hið almenna orðalag, og samkv. því má gera ráð fyrir, að n. þessi eigi að hafa rúmar hendur um starfssvið. Ég álít því rétt að fallast á till. nefndarinnar.

Hv. 1. þm. Reykv. vildi álíta, að óþarft væri fyrir Alþýðusambandið að eiga fulltrúa í n., en í stað þess ætti verzlunarráðið að tilnefna mann. Ég gæti fallizt á það, að það sé rétt, að verzlunarráðið hafi hönd í bagga um skipun n. með því að tilnefna fulltrúa, en ég tel, að því verði bezt við komið með því að bæta þeim fulltrúa við í n., því að ég tel, að það fari vel á því, að verkamannastéttin eigi fulltrúa í n.