11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (3232)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jón Baldvinsson:

Þó svo færi nú, að kosin hefir verið sérstök n. hér í hv. d. til þess að athuga þáltill. hæstv. stj., þá fæ ég ekki séð, að n. hafi tekizt að bæta hana. N. hefir einmitt gert verksvið mþn. þrengra og orðalag till. loðnara. Eitt vill n. fella niður úr þáltill., en það er 4. liður, um að athuga um skipun menntamála iðnaðarins, og það er ekki svo lítil breyting. Ég þykist skilja það á hv. 1. þm. Reykv., að iðnráðið, eða aðallega einn maður í því, hafi talið sig nægilega forsjón iðnaðarins hér á landi og að það þyrfti því enga n. Mér skilst það á hv. þm., að þessi maður álíti, að hér sé ekkert að gera með stuðning löggjafarvaldsins eða hins opinbera. Iðnaðarmannafélag Rvíkur lítur öðruvísi á þetta. Þáltill. hæstv. stj. er einmitt byggð á bréfi frá félaginu, dags. 8. febr. síðastl., þar sem mjög greinilega er lýst áliti félagsins á þörf iðnaðarmanna á því, að Alþingi gefi málum þeirra gaum og skipi mþn. í því skyni. Eins og ég hefi tekið fram, sé ég ekki ástæðu til að fallast á brtt. iðnaðarnefndar við þáltill. og mun því greiða atkv. á móti henni.

Það má gera athugun á því, hvort þessi maður, sem þykir sjálfkjörin forsjón iðnaðarins, er heppilega til þess valinn. Ég get bent á það, að hann er nú sjálfur enginn iðnaðarmaður og veit því eðlilega ekki, hvar skórinn kreppir mest í þeim sökum. Í sambandi við samsetning n. hefir hv. 2. þm. Árn. mælt með því, að Alþýðusambandið veldi fulltrúa í n. og sýnt fram á, hvaða ástæður mæla með því. Ég get til viðbótar bent á það, að nokkur iðjufélög eru einmitt í Alþýðusambandinu og þar eru því ýmsir menn, sem þetta mál snertir og ættu að hafa rétt til áhrifa í málinu. Það renna því margar stoðir undir þá till., að Alþýðusambandið velji mann í þessa n. Það hagar svo til, að meðal iðnaðarmanna eru tvær stéttir, sem hafa hér eins og annarsstaðar gerist hvor sinna hagsmuna að gæta. Það eru meistararnir, sem standa fyrir iðnaðarfyrirtækjunum, og sveinarnir, sem framkvæma að mestu vinnuna. Það eru launin og fleiri atriði, sem þar er um að ræða, og það er sannarlega ekki of mikið vald, sem sveinarnir fá í þessu efni, þó að Alþýðusambandið fengi að velja þar einn mann, sem eðlilega yrði þeirra fulltrúi. Hv. 1. þm. Reykv. stakk upp á því, að verzlunarmannastéttin fengi að velja einn fulltrúa í n., og hvað þá till. snertir út af fyrir sig, hefi ég ekkert við hana að athuga, en það er ekki rétt, að það eigi að verða á kostnað Alþýðusambandsins. En ég vil spyrja hv. 1. þm. Reykv. að því, hvort Félag íslenzkra botnvörpueigenda sé til eða ekki. Ég hafði álitið til þessa, að þetta væri stórt og voldugt félag, en nýlega hefir mér verið skýrt frá því, að allt að helmingi félagsmanna hafi geng ið úr því, og ég hefi ennfremur heyrt, að það hafi ekki verið haldinn aðalfundur í félaginu í milli 10 og 20 ár. Þetta er að vísu aðeins orðrómur, en ég hefi ennfremur heyrt, að það væri einn maður í félaginu, formaður félagsins, sem réði öllu og gerði allt einn. Ef þessar fregnir eru nú réttar, þá sýnist svo, að fulltrúi frá þessu félagi mætti að skaðlausu falla niður og í stað hans fengi hin afarfjölmenna verzlunarstétt að velja fulltrúa. — Ég mun eins og ég hefi áður sagt greiða atkv. gegn umorðun hv. n. á þáltill., og að sjálfsögðu einnig á móti till. hv. 1. þm. Reykv. um að fella niður fulltrúa Alþýðusambandsins.