11.04.1932
Efri deild: 48. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í D-deild Alþingistíðinda. (3233)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jakob Möller [óyfirl.]:

Mér hafði ekki dottið það í hug; að ætlazt væri til, að þessi n. gerði till. um kaupgjald iðnaðarmanna, en ef svo er, sem hv. 2. landsk. benti á, þá er hér náttúrlega öðru máli að gegna um það, hvort Alþýðusambandið á að hafa fulltrúa í n. Hann talaði um, að aðalástæðan fyrir því, að Alþýðusambandið þyrfti að eiga fulltrúa, væri mismunandi hagsmunir meistara og sveina, og að kaupgjaldsmál yrðu væntanlega eitt af aðalverkefnum n. En ég held nú, að það hafi aldrei verið meiningin, að n. ætti að fjalla um þetta mál, og að það komi ekki einu sinni til greina.

Það, sem ég sagði, miðaði ég að öðru leyti út frá því, sem stendur í b-lið brtt. um aðalverkefni n., sem sé það, að athuga möguleika um aukna innlenda iðju, einkum um það, að vinna úr þeim efnum, sem eru til í landinu sjálfu, og ég held, að Alþýðusambandið hafi ekki frá því sjónarmiði sem Alþýðusamband Íslands neina sérstaka aðstöðu eða sérþekkingu til þess að hafa áhrif á val n., þó það kunni að vera menn innan takmarka þess, er bera skyn á iðnaðarmál.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til þess að orðlengja um málið. Ég geri ráð fyrir að flytja brtt. við síðari umr. um málið og geymi mér þangað til að fara frekar út í einstök atriði, enda sýnist tæplega ástæða að þessu sinni að lengja kappræður út af slíkum smámunum sem hér er gert.