15.04.1932
Efri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 101 í D-deild Alþingistíðinda. (3252)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það eru aðeins örfá orð í sambandi við brtt. okkar hv. 2. þm. Eyf. og brtt. þeirra 2. og 3. landsk., sem ég sé enga ástæðu til að samþ. Eins og ég benti á, verður starf þessarar n. í þágu þeirra aðila, er í hana eiga að nefna menn. Ef þeir fá ekki menn til að vinna þetta kauplaust, þá er ekkert eðlilegra en að þeir, sem skipa þá, launi hver sínum manni. Mér skilst, að aðalverkefni slíkrar n., sem hér um ræðir, verði það, að athuga möguleikana til vinnslu úr hráefnum. Hafa landbúnaður og sjávarútvegur þar þá mestra hagsmuna að gæta. Vonin um, að árangur geti orðið af starfi n., byggist og mest á því, að í hana veljist áhugamenn, sem af þeirri ástæðu störfuðu kauplaust. En minni slægur gæti verið í þeim mönnum, er sæktust í að starfa í n. í þeim tilgangi að fá eitthvað fyrir það. Ef menn fást ekki til að vinna í n. kauplaust, þá er áhuginn fyrir þessu svo lítill, að engin von er um árangur, ef þeir fást til að vinna í henni aðeins af því, að þeim er borgað fyrir það.