15.04.1932
Efri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 103 í D-deild Alþingistíðinda. (3254)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jakob Möller [óyfirl.]:

Ég skildi lítið í ræðu hv. 2. landsk. Hann sagði, að ef rannsaka ætti þessi mál að gagni, þá mundi það kosta of fjár, talar um, að þyrfti a. m. k. 2000 kr. En svo kemur hann með till. um, að hver nm. fái 300 kr. Það telur hann þóknun og væntir sjáanlega ekki mikils árangurs af starfi n. Það er eins og hv. þm. hafi ekki veitt því eftirtekt, að eftir till. okkar hv. 2. þm. Eyf. á nauðsynlegur kostnaður að greiðast úr ríkissjóði. Hér er því eingöngu um það að ræða, hvort n. skuli borgað kaup, en ekki það, sem kosta þarf til vegna þess, sem þarf að láta vísindamenn rannsaka. Hv. þm. þurfti því ekki að vaða í villu og svima um þetta.

Ég taldi og, að þau félög, sem skipuðu þessa menn, gætu greitt þeim þóknun, því ef starf n. verður nokkrum að gagni, þá er það þeim atvinnugreinum, sem þau eru fulltrúar fyrir. Að því er til vinnslu úr efnivöru kemur, þá eiga landbúnaður og sjávarútvegur þar sína fulltrúa. Og ef það er talin hæfileg þóknun, að hver nm. fái 300 kr., þá getur það gjarnan verið prófsteinn á það, hvort félög þessi telja það gagn að n., að þau vilji vinna til að borga þær. Nú álíta iðnaðarmenn að vísu, að ekki sé mikils árangurs að vænta fyrir iðnaðinn af starfi þessarar n. En ég hygg þó, að Iðnaðarmannafélagið sé svo vel stætt, að það geti borgað sínum manni 300 kr., ef það álítur, að það sé þess vert, að n. sé skipuð. Sama má segja um S. Í. S. fyrir hönd landbúnaðarins og Útgerðarmannafélagið fyrir hönd sjávarútvegsins. Ef þessir aðilar allir telja, að einhvers árangurs sé að vænta, þá stendur þetta varla í vegi fyrir því, að n. verði skipuð. En ef þeir telja það árangurslaust, þá er líka gagnslaust fyrir okkur að vera að samþ. þetta.