03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í D-deild Alþingistíðinda. (3266)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Jóhann Jósefsson:

Ég saknaði þess í ræðu hv. frsm., að hann virtist ekkert vilja láta uppi með það, hvernig iðnaðarmenn landsins litu á þessa till. Mér þykir þó líklegt, að hv. frsm. hafi kynnt sér álit iðnaðarmanna, eða a. m. k. fyrir- svarsmanna þeirra, á þessu atriði, sem sé því, hvað sé unnið við það að skipa þessa mþn. En hann hliðrar sér algerlega hjá því að skýra frá áliti þessara manna á afgreiðslu till. Ég verð að taka undir með hv. 2. þm. Skagf. að því er það snertir, að orðið hefir vart við óánægju hjá iðnaðarmönnum um þetta mál. Ég veit ekki, hvort hv. frsm. veit um þetta eða hvort n. hefir kynnt sér, hvað þeir vilja. En ég hefi vissu fyrir því, að margir iðnaðarmenn eru mótfallnir þessari aðferð í áhugamáli þeirra, og ég man ekki betur en að þinginu hafi borizt mótmæli um þetta efni. Ég vildi óska, að hv. frsm. vildi leysa betur frá skjóðunni um það, hvort n. hefir afgr. málið án þess að hafa talað við iðnaðarmenn, eða hvort hún er á gagnstæðri skoðun við þeirra skoðun. Þeir iðnaðarmenn, sem ég hefi átt tal við hér í hænum, hafa sagt, að þeir skoðuðu þessa till. verða þess valdandi að skjóta á frest um ófyrirsjáanlegan tíma nokkrum verulegum umbótum á iðnaðarlöggjöfinni. Hér á þingi hafa komið ýms frv. í þá átt að létta undir með innlendum iðnaði og veita atvinnu inn í landið, sem sótt er að mörgu leyti til útlanda nú. En þessi mál hafa haft ákaflega lítinn framgang hingað til, svo ég viti. Þegar þess er gætt, að þingið sinnir lítið einstökum málaleitunum, t. d. um ívilnun á tolli á vörum, sem notaðar eru til iðnaðarframleiðslu, en kastar svo fram till. um mþn., sem eigi að athuga tollalöggjöf og möguleika með tilliti til þess, hvað hægt sé að gera meira fyrir iðnaðinn, þá er eðlilegt, að iðnaðarmenn álíti, að með þessu sé verið að bægja til hliðar hinum verulegu áhugamálum þeirra. Hv. frsm. taldi, að till. væri sjálfsögð, því hér ætti að rannsaka eitthvert merkilegasta atvinnumál okkar, og virtist ekki vera vanþörf á að gera það. Ég skal fúslega játa, að það er full ástæða til þess. En það er líka ýmislegt, sem hægt er að gera strax, ef þingið vill í þessu efni, t. d. að samþ. frv., sem liggja fyrir þinginu, þar sem farið er fram á að afnema tolla af efnivöru til iðnaðar. Sannleikurinn mun vera sá, að til er heimild í 1. fyrir stj. að hliðra til með tolla á efnivöru til iðnaðar, en í framkvæmdinni er alltaf hafizt við í þessu efni. Séu sendar umsóknir til stjórnarráðsins um eftirgjöf á einhverjum tolli, þá hefir það venjulega farið svo, að umsóknin hefir verið send til tollstjórans í Rvík og út úr því fær maður ekkert nema lögskýringar, sem ganga út á að verja það, að þessum tolli sé haldið við. Hv. frsm. segir, að hér eigi að rannsaka merkilegt mál, en svo er gert ráð fyrir, að nm. vinni kauplaust. Hitt atriðið minntist hv. þm. N.-Ísf. á, hversu það er fráleitt, hvernig n. á að vera skipuð. Till. ber það sjálf með sér, að til alls þessa er stofnað af handahófi og út í loftið. Hvaða líkur eru til, að þessi verkefni verði betur leyst af Félagi íslenzkra botnvörpuskipaeigenda, S. Í. S. og Alþýðusamb. Íslands? Þetta er mál iðnaðarins og um það eiga að mestu leyti að fjalla þeir menn, sem við iðnað eru riðnir. Ef meiningin er að láta einhverja gaumgæfilega rannsókn fara fram, og ef á að vinna eitthvert verulegt verk, þá sjá það allir, að þýðingarlaust er að tala um það í sambandi við samþykkt þessarar till., að mennirnir eigi að starfa kauplaust. Ef litið er á störf fyrrv. mþn., sem unnið hafa fyrir kaupi, þá er árangurinn, hjá sumum hverjum a. m. k., ekki svo glæsilegur, að hægt sé að búast við, þegar skylda á einhverja til að vinna kauplaust að endurskoðun á tollalöggjöf og rannsaka möguleika á aukningu iðnaðar, landbúnaðar- og sjávarafurða og öðru, að nokkurt starf verði unnið sem starf heitir. Ég held, að í raun og veru væri betra, að stj. léti fram fara rannsókn á þessu og veldi til þess menn, sem hefðu sérþekkingu. Úr því að gera á þetta þannig, að nm. vinni kauplaust, þá sé ég ekki, að því sé betur borgið heldur en þó að ráðuneytið, sem sér um þetta mál, fái menn til að athuga þetta, því að stj. hefir mönnum á að skipa í ráðuneytunum, sem hafa eins góða þekkingu á þessum málum eins og þeir menn að líkindum hafa, sem eiga að verða skipaðir eftir till. n. Vegna þess að ég veit, að iðnaðarmenn leggja lítið upp úr þessari afgreiðslu málsins, vil ég leggja til, að málinu verði vísað til stj. Fyrst ekki verður gerð önnur ráðstöfun í þessu efni en að koma með svona till., þá finnst mér málinu allt eins vel borgið á þann hátt og ekki stofnað til neins aukakostnaðar fyrir ríkissjóð. En ef á að afgreiða till. í því formi, sem hér liggur fyrir, er aðeins um tvennt að velja, annaðhvort verður sama og ekkert verk unnið eða þá að starfið verður að launa, og getur það þá kostað stórfé.