03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (3271)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Frsm. (Bergur Jónsson):

Hv. þm. Vestm. beindi þeirri fyrirspurn til allshn., hvort hún hefði kynnt sér hug iðnaðarmanna til þessa máls. Ég skal játa, að n. hefir ekki gert þetta, en það er sakir þess, að hún fann ekkert tilefni til þess, þar sem till. er búin að liggja fyrir þinginu frá byrjun þess, og hefir iðnaðarmönnum því gefizt nægilegt tilefni til aths., ef þeir hefðu talið þeirra þörf. Að því er snertir þau ummæli hv. þm. Vestm. og hv. 2. þm. Skagf., að iðnaðarmenn muni vera mótfallnir þessari till., þá finnst mér skjóta heldur skökku við, a. m. k. við bréf stjórnar Iðnaðarmannafél. Reykjavíkur, sem prentað er með till. eins og hún var lögð fyrir þingið. Þar er þess m. a. krafizt, að tekið verði til rækilegrar athugunar:

a) Endurbætur á iðnaðarlöggjöfinni frá 1926.

b) Endurbætur á tollalöggjöfinni að því er iðnaðinn snertir.

c ) Möguleikar á að auka innlendan iðnað, einkum með því að vinna úr innlendum hráefnum.

Svo segir stj. Iðnaðarmannafélagsins ennfremur:

„Eins og Alþingi er nú skipað, teljum vér enga von til, að nefnd þingmanna geti rannsakað eða gert tillögur um þessi mál. Teljum vér því nauðsynlegt, að skipuð sé nefnd úr hópi þeirra manna, er mál þessi koma sérstaklega við, til þess að rannsaka og gera till. um þau“.

Nefndarskipun sú, sem hér er um að ræða, er því beinlínis eftir till. stjórnar Iðnaðarmannafélagsins, og hún er umboðsmaður þess aðilans, sem mál þetta varðar mestu. Ég fæ því ekki séð, að nein ástæða sé til þess að efast um, að till. þessari verði vel tekið meðal iðnaðarmanna.

Aths. þessara hv. þm. um það, hvernig skipa eigi í nefndina, hefir hv. 1. þm. Rang. þegar svarað að mestu, og þarf ég því litlu þar við að bæta. Mér virðist enginn vafi á því, að Samband ísl. samvinnufélaga og Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda hafi svo mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við þetta mál, að full ástæða sé til, að þeir leggi til fulltrúa í n., Sambandið vegna ullarinnar og gæranna, en botnvörpuskipaeigendafélagið vegna veiðarfæraiðnaðarins o. fl. Þá fæ ég ekki séð, að þess sé þörf, að n. skipi eintómir iðnaðarmenn, því að hér er ekki eingöngu um að ræða sérstakt hagsmunamál fyrir iðnaðarmannastéttina, heldur er og um að ræða stórfellt hagsmunamál fyrir alla þjóðina í heild sinni, og með það fyrir augum á að skipa í n.

Hv. þm. Vestm. vildi halda því fram, að verið væri að skjóta á frest málum iðnaðarins og nefndi þar til, að tollaívilnanir gagnvart iðnaðinum hefðu ekki náð fram að ganga. Þessu er því að svara, að einmitt í till. er lagt til, að gerð verði gagngerð athugun á tollalöggjöfinni að því er iðnaðinn snertir. Annars er öllum þm. að sjálfsögðu frjálst að bera fram till. til þingsins um breyt. á þeirri löggjöf eins og annari, og ég sé enga ástæðu til að ganga á móti þeim, ef þær eru á réttum grundvelli byggðar.

Eins og tekið hefir verið fram, er hún sízt til bóta breytingin, sem Ed. gerði á till., að fella niður greiðslu til nm. Það má nefnil. búast við, að starf n. verði ekki eins vel af hendi leyst, ef nm. eiga að vinna kauplaust, eins og ef þeir fengju störf sín greidd eins og venja er til. Auk þess er ég í vafa um, að hægt sé að skylda menn til þess að taka sæti í n. og vinna kauplaust. Ég myndi því verða meðmæltur brtt., sem færi í þá átt að laga þetta.