03.05.1932
Neðri deild: 66. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í D-deild Alþingistíðinda. (3273)

23. mál, milliþinganefndir um iðjumál og iðnað

Haraldur Guðmundsson:

Ég er samþykkur till. þessari í öllum aðalatriðum. Tel verkefni það, sem hér er um að ræða, eiga svo mikinn rétt á sér, að full ástæða sé til þess, að því sé þegar sinnt. Sömuleiðis er ég sammála um það í öllum aðalatriðum, hvernig skipa á í n. Að því er snertir Alþýðusambandið vil ég til viðbótar því, sem hv. 2. þm. Reykv. tók fram, benda á, að í Alþýðusambandinu eru ýms iðnfélög, og því fullkomlega réttmætt, að það bendi á einn mann í n. þessa. Ég býst nú við, að allir séu á einu máli um það, að n. eigi eitthvað að vinna, en þá tel ég með öllu ógerlegt að samþ. síðustu málsgr. till., þar sem svo er ákveðið, að nm. vinni kauplaust. Með því að samþ. þessa málsgr. eins og hún er nú er öllum bægt frá að vinna í n., sem ekki hafa það góðar ástæður, að þeir geti starfað kauplaust um lengri eða skemmri tíma, en það tel ég mjög varhugavert, því að búast mætti við, að afleiðingin af því yrði sú, sem hv. 2. þm. Reykv. benti á, að nm. ynnu ekki neitt. Til þess að ráða bót á þessum ágalla í till. vil ég leyfa mér að bera fram skrifl. brtt. um, að 1. málsl. síðustu málsgr. till., er hljóðar svo: „Nefndarm. starfa kauplaust“, falli burt.