10.05.1932
Sameinað þing: 8. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 379 í C-deild Alþingistíðinda. (3280)

61. mál, gelding hesta og nauta

Frsm. landbn. Ed. (Páll Hermannsson):

Svo sem að líkum lætur, þá koma hér fyrir sameinað Alþingi þau mál, sem ágreiningur verður um á milli deildanna. Eins og hv. frsm. landbn. Nd. tók fram, þá er ágreiningurinn í þessu máli á milli deildanna um það, hvenær ákvæði frv. þessa eigi að koma til framkvæmda. mál þetta var upphaflega borið fram í hv. Nd. og samþ. þar. Þegar það kom til Ed., áleit landbn. þar, að inn í það vantaði ákvæði, svo að hægt væri að framkvæma hugsun þess. Eins og kunnugt er, þá er ætlazt til samkv. frv., að hross og naut séu svæfð þegar þau eru gelt, en í frv. eins og það kom frá Nd. var ekkert ákvæði, sem tryggði það, að þeir menn, sem ætlað var að framkvæma þetta, fengju aðgang að því að geta lært það, sem til þess þarf að geta gert það sómasamlega. Þessu breytti Ed. og á það hefir hv. Nd. getað fallizt. Hitt atriðið, að lögin komi ekki til framkvæmda fyrr en eftir 21/2 ár, er sama eðlis. Það er sett til þess, að ekki þurfi að brjóta lögin þegar til framkvæmdanna kemur. Landbn. Ed. fékk upplýsingar um það hjá dýralækni, að það þyrfti langan tíma til þess að kenna nægilega mörgum mönnum í landinu að svæfa hesta og naut, svo hægt yrði að framkvæma ákvæði frv., ef að lögum yrði, og fyrir þær sakir m. a. setti landbn. tímann svona langan og þegar minnsta brot gegn lögunum á að varða 50 kr. sekt, þá er það skylda löggjafarvaldsins að gera það, sem í þess valdi stendur, til þess að menn séu beinlínis ekki neyddir til að brjóta þau, en það tel ég að sé gert ef mönnum er ekki ætlaður nógu langur tími til undirbúnings framkvæmd þeirra.

Verði frv. samþ. eins og það liggur fyrir nú, þá eru 21/2 ár frá því lögin öðlast staðfestingu og þar til þau koma til framkvæmda, en að þeim tíma liðnum mætti búast við, að nægilega margir menn yrðu búnir að læra svæfingu og geldingu hesta og nauta, svo að undantekningarlaust yrði hægt að framfylgja ákvæðum laganna.

Annars hygg ég, að mál þetta sé svo ljós, að þm. hafi áttað sig á því, hvað hér er um að ræða. Ágreiningurinn er, aðeins um það, hvort frest skuli gefa eða hvort lögin eigi að ganga í gildi og koma til framkvæmda um næstu áramót. Ég tel tímann til næstu áramóta of stuttan til þess að hægt verði að tryggja nægilega marga menn til þess að vinna þetta starf, svo ekki þurfi að brjóta gegn lögunum.