31.03.1932
Efri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í C-deild Alþingistíðinda. (3288)

243. mál, síldarmat

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Það er rétt, að hv. 1. þm. Reykv. var ekki við, þegar frv. var afgr. frá n. mér var falið að útbúa frv. eins og n. hafði samþ. að ganga frá því. En hv. þm. var víst ekki við, þegar þetta, sem hann gerði að umtalsefni, var ákveðið.

Ég vil leiðrétta dálítinn misskilning, sem kom fram í ræðu hans, enda þótt ég geri það ekki að neinu kappsmáli, hvort yfirmatsmaðurinn hefir búsetu á Seyðisfirði eða annarsstaðar á Austfjörðum. Þessi misskilningur er, að Seyðisfjörður liggi „centralt“. Hann er eiginlega á öðrum enda síldarstöðvanna eystra. Ég veit ekki til, þótt athugaður sé útflutningur margra ára, að neitt hafi verið flutt út norðan við Seyðisfjörð, og það um fleiri áratugi. En útflutningur frá Reyðarfirði hefir jafnan verið miklu hærri en frá Seyðisfirði. Ef því ætti að gera upp á milli þessara staða eftir því, hvar líkur væru til, að meiri söltun væri, þá yrði Reyðarfjörður ofan á. Reyðarfjörður og Eskifjörður liggja að vísu saman, svo ekki er hægt að aðskilja útflutninginn frá þeim báðum. Fyrir sunnan Reyðarfjörð er Fáskrúðsfjörður, þar sem einnig hefir verið söltuð síld. Reyðarfjörður stendur því ekki fjær en Seyðisfjörður; ef ákveða ætti búsetuna eftir því. En ég vil þó ekki gera þetta að neinu kappsmáli. Í frv. eru laun yfirmatsmannanna ákveðin 2000 kr. Er það svo lagt, að ekki er vert að setja þeim það skilyrði um búsetu, sem getur valdið þeim óþægindum. (JBald: Þeir fá líka ferðakostnað greiddan). Þetta er ekkert athugavert, þar sem söltun fer fram á 21/2 mánuði. En á Austfjörðum hagar þessu öðruvísi til. Þar hefir alloft einnig verð saltað að vetrinum. Þetta atriði er ekki lítils virði, þegar aðsetursstaður er ákveðinn. Þótt ég sé kunnugur þarna, vil ég þó ekki, að ákveðið sé, að yfirmatsmaðurinn hafi búsetu á Reyðarfirði. Ég vil láta þetta liggja laust og að atvikin skapi það, hvar hann hefir búsetu. Það getur aldrei orðið stór baggi fyrir neinn, hvar aðsetrið er.