10.03.1932
Neðri deild: 25. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 791 í B-deild Alþingistíðinda. (329)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Sveinbjörn Högnason:

Ég hefi ásamt oðrum hv. þm. borið fram brtt. við þetta skattafrv., þess efnis, að nokkrum hluta af bifreiðaskattinum verði varið til þess að styrkja þau héruð, sem hafa erfiðasta aðstöðuna til flutninga og skattur þessi myndi lenda þyngst á. Það er óþarfi að sýna fram á, að löggjafarvaldið hefir talið sér skylt að styrkja flutninga á nauðsynjavörum fremur en að skattleggja þá. Í því sambandi nægir að benda á, að flutningar á sjó með ströndum fram eru nú styrktir af opinberu fé með um 1/2 millj. kr. á ári. Nú er það vitanlegt, að stór héruð, t. d. suðurlandsundirlendið, eru þannig sett, að hafnleysur varna öllum skipaflutningum til og frá, og, verða héruð þessi því að byggja á vörubílaflutningum alla leið frá Rvík. Það er því auðsær óréttur gagnvart þessum héruðum, ef frv. verður samþ. óbreytt. Á sama tíma og varið er ca. 1/2 millj. kr. til flutninga á sjó til annara héraða, á að skattleggja stórkostlega þau einu flutningatæki, sem þessi heruð geta notað. Hitt get ég aftur á móti játað, að þessi skattur á talsverðan rétt á sér innan vissra takmarka. Hæstv. fjmrh. benti á, að hann væri algengur um allan heim, og meira að segja án nokkura takmarka með tilliti til vörubíla, og mér skildist það á honum, að fyrst svo væri, þá væri þessi skattur líka réttlátur hér. En það er aðgætandi, aii alstaðar erlendis munu flutningatækin vera styrkt stórum af ríkisfé. Ég veit ekki betur en að járnbrautir njóti alstaðar styrks til rekstrar, enda víðast svo, að þær annast langtum meiri flutning innanlands en bifreiðarnar. Þess vegna eru landflutningar erlendis alls ekki sambærilegir við íslenzku, þar sem heil héruð verða eingöngu að byggja á bifreiðasamgöngum. Þá er það og aðgætandi, að þó að frv. ætlist til þess, að skatturinn komi léttar niður á vörubifreiðum en „luksus“bílum, verður það ekki svo í reyndinni, því eins og allir vita eya flutningsbifreiðar allt að helmingi meira benzíni en fólksflutningsbifreiðar. Hér er því að ræða um verulega hækkun á skatti þeim af vörubifreiðum, sem er í núgildandi lögum. Þar er ákveðinn skattur, sem fer eftir hestorku vélarinnar og mun það nema um 60 kr. á ári fyrir 11/2 tonns bifreið. En mér hefir reiknazt svo til, að samkv. þessum skatti yrði að gjalda 600–800 kr. á ári af 11/2 tonns bifreið, sem hefði fastar ferðir t. d. austur yfir fjall alla tíma ársins. Sést þá, að þetta er enginn smáræðisskattur á flutningi einmitt til þeirra héraða, sem erfiðast eiga með alla aðdrætti. Ég vil í því sambandi benda á ummæli hæstv. fjmrh., þar sem hann sagði, að sjálfsagt væri að varast skattaálögur á atvinnurekstur í landinu á þeim tímum, sem nú eru. Er ég honum að öllu sammála í þeim efnum. En hvað verður þessi skattur annað, ef lögleiddur verður, en nýjar álögur á atvinnuvegi bændanna, sem nota þurfa þessa flutninga með allar afurðir sínar? Og það eru sannarlega álögur, sem um munar. Og mun þó annar atvinnurekstur frekar þola nýjar álögur en sá, sem hér um ræðir. Það er aðgætandi, að hér er ekki aðeins verið að ræða um hagsmuni þeirra, sem atvinnurekstur stunda hér á Suðurlandsundirlendinu, heldur er það líka hagsmunamál Reykvíkinga að fá afurðir Suðurlandsundirlendisins fluttar til Rvíkur með sæmilegum kjörum. Ég vil benda á ummæli hv. 3. þm. Reykv. áðan um það, að mjólkin frá Suðurlandsundirlendinu, sem seld er í Rvík, þyrfti að lækka í verði. En verði nú þessi benzínskattur settur á án þess að um leið séu nokkrar ráðstafanir gerðar til þess að draga úr áhrifum hans, þar sem hann kemur harðast niður, hækkar auðvitað flutningsgjaldið á mjólkinni til Rvíkur og til mjólkurbúanna, og afleiðingin yrði auðvitað sú, að mjólkurverðið hækkaði. Það verður þó sannarlega að álítast, að þar sé ekki við bætandi á það, sem er, þar sem dæmi munu til þess, að flutningskostnaður á lítra austan yfir Hellisheiði og hingað hafi orðið 12–14 aurar. Ég get fallizt á, að benzínskattur eins og hér er farið fram á sé ekki óréttlátur hvað snertir luksusbifreiðar, en það liggur í augum uppi, að verði vörubifreiðar skattlagðar í stórum stíl, verður að styrkja flutninga til og frá þeim héruðum, sem harðast verða úti. Ég hefði helzt óskað, að vörubifreiðar yrðu alveg undanþegnar benzínskatti, en þar sem því verður engan veginn við komið, hygg ég, að leið sú, sem brtt. okkar bendir á, sé sú eina, sem fær er til þess að bæta úr því. Ég er sannfærður um, að þótt þessum hluta skattsins verði varið til þess að styrkja bifreiðaflutninga til landshluta, þar sem 10 þús. landsmanna geta notið þeirra, þá er það tiltölulega miklu minni styrkur en sá, sem hið opinbera veitir til flutninga með ströndum fram til annara héraða landsins, og hlutfallslega myndi þetta ekki nema örlítið brot af því, sem íbúum þessara héraða ber, ættu heir að fá svipaða hjálp með flutninga sína og aðrir þegnar þjóðfélagsins njóta frá hinu opinbera. Ég vil því leyfa mér að vona, að þetta réttlætismál fái góðar undirtektir hjá hv. d. Það er svo augljós réttlætiskrafa frá okkur, sem búum á Suðurlandsundirlendinu, að flutningar til okkar verði þó a. m. k. ekki skattlagðir, samhliða því, að alstaðar í öðrum héruðum landsins eru þeir stórlega styrktir af opinberu fé.