17.05.1932
Sameinað þing: 10. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í C-deild Alþingistíðinda. (3311)

243. mál, síldarmat

Frsm. sjútvn. Ed. (Ingvar Pálmason):

Ég hefði gjarnan óskað þess, að hv. frsm. sjútvn. Nd. hefði verið viðstaddur og hlustað á þau fáu orð, er ég hefi um þetta mál að segja. En sé þess ekki kostur, mun því eigi annað tjá en að halda áfram málinu.

Um þetta mál er svo ástatt, að um það er mikill ágreiningur milli deilda. mál fara oft til Sþ. út af ágreiningi um eitt einstakt atriði. En hér er um algerðan stefnumun milli deilda að ræða.

Áður en ég vík að frv. sjálfu, vil ég rifja upp tildrögin að því, að það var flutt. Á öndverðu þingi fór hæstv. atvmrh. þess á leit við sjútvn. Ed., að hún undirbyggi og flytti frv. til l. um síldarmat. Ég fyrir mitt leyti tók þessu fremur þunglega í byrjun. En eftir að hafa ráðfært mig við meðnm. mína í sjútvn., varð það þó að ráði, að við tókumst á hendur þetta vandaverk. Frá því er að segja, að haustið 1926 var skipuð n. til að semja frv. um síldarmat. Í henni áttu sæti Jón Bergsveinsson síldarmatsmaður, Kristján Bergsson forseti Fiskifélagsins og Vigfús Einarsson skrifstofustjóri í atvmrn. Þeir sömdu svo frv., og varð það ekki tilbúið fyrr en svo, að það var lagt fyrir þingið 1928. Á því þingi voru samþ. lög um einkasölu á síld, og var allt síldarmat með þeim lögum lagt í hendur stjórnar einkasölunnar, svo að frv. dagaði að því sinni uppi í þinginu. En þar sem eldri ákvæði um síldarmat voru með einkasölulögunum úr gildi numin, er nú, þegar þau lög eru numin úr gildi, ástæða til að setja lög um þetta efni. nú tók sjútvn. Ed. það ráð að leggja frv. frá 1928 til grundvallar fyrir samningu þessa frv., en hefir þó breytt frá því í smáatriðum. Kvöddum við til aðstoðar Jón Bergsveinsson fyrrv. yfirsíldarmatsmann. Hefir hann manna mesta reynslu í þessum efnum, og í samráði við hann gerðum við þessar smávægilegu breyt. Frv. kom svo fyrir Ed. og fékk þar góðar undirtektir. Var það samþ. þar við 3. umr. mótatkvæðalaust og afgr. til Nd. En þegar þangað kom, varð nokkuð annað uppi. Sjútvn. semur nýtt frv. og breytir stefnu þess algerlega. Er ég þá kominn að því, sem ber á milli.

Eins og frá frv. var gengið í Ed., átti öll sú síld, sem ætluð var til söltunar og sölu á erlendum markaði, að metast strax nýveidd og vera undir umsjón matsmanns unz hún væri flutt út, og að hún skyldi endurmetin ef grunsamt þætti að hún hefði skemmzt áður en hún væri flutt út. En frv. þetta, eins og Nd. hefir gengið frá því, gerir eingöngu ráð fyrir mati á síld, sem legið hefir 20 daga eða lengur í salti og er ætluð til útflutnings, en síld, sem skemur hefir legið í salti, skuli undanþegin mati með öllu. Þó er heimilt að láta mat fara fram á henni, ef ágreiningur rís á milli kaupanda og seljanda. Mun það vera öllum þingheimi ljóst, að hér er um afarmikinn ágreining að ræða. Til þess að gera ljósara fyrir mönnum, hvað það. er, sem sjútvn. deildanna ber á milli, vil ég benda á nokkur atriði.

Í frv. er gert ráð fyrir því, að síldin skuli metin á þann hátt, að opnaðar séu og skoðað í 6–8 tunnur af hverjum 100. Ef matsmaðurinn finnur ekkert athugavert við þessar 6–8 tunnur, þá á hann að gefa vottorð um það, að síldin sé ekki einungis góð og nothæf verzlunarvara, heldur og líka um stærð og ásigkomulag hennar að öðru leyti. Við teljum, að slíkt vottorð hljóti að vera óábyggilegt og ekki meira virði en þau vottorð, sem tíðkazt hafa til skamms tíma, að hreppstjórar gæfu um nothæfni íslenzkrar vöru. Til tryggingar fyrir kaupanda, að varan sé góð, er þetta mat gagnslaust eða a. m. k. mjög ófullkomið. Við getum hugsað okkur hvað langt við hefðum komizt með að vinna saltfiski okkar það álit, sem hann hefir nú fengið, ef við hefðum ekki notað öruggari aðferðir við matið en það, að skoða 4–6% af fiskpökkunum og votta svo alla sendinguna góða og gilda voru, bæði að stærð og gæðum. Nú er svo komið, að kaupendur treysta fiskmatinu og vita jafnan eftir vottorðum matsmanna, hverskonar vöru er um að ræða. Þessu er enn ekki orðið svona varið með síldina. Meðferð hennar er ekki orðin svo örugg, að þetta gildi um hana. Þarf því til þess að vanda, að hún vinni álit, og er þá þetta mat, sem frv. ráðgerir, hvergi nærri nógu tryggilegt. Þessi aðferð er líka erfið í framkvæmd og verður dýrt að framkvæma það á þennan hátt, svo að tryggilegt megi teljast. Auk þess er hætt við, að síldin líði við það að vera tekin úr tunnunum og verði þá ekki eins góð vara, og loks er með þessu fyrirkomulagi, með svo flausturslegu móti, ekki fengin full trygging fyrir því, að varan sé góð og eins og hún er sögð. Til þess að tryggja slíkt fullkomlega, þarf að meta síldina nýja. Ég vil til samanburðar benda á aðra framleiðsluvöru okkar, kjötið. Það myndi þykja ankannaleg aðferð, ef það væri ekki metið fyrr en það er flutt út, þá fyrst væri skoðað í nokkrar tunnur og það væri allt matið. En ef slíkt er ekki hyggilegt með kjötið, þá er það þó enn síður með síldina.

Það er vitanlegt, að sú hefir verið orsök þess að einhverju leyti, að sjútvn. Nd. breytti þessu ákvæði, að hún hefir viljað spara ríkissjóði og síldarútflytjendum kostnað þann, er leiddi af mati á nýrri síld. Að þessu er vikið í nál. hennar. En ef við á annað borað trúum á það, að hægt sé að gera síldina að seljanlegri voru á útlendum markaði eftir mati hér heima, þá verðum við að eyða í það bæði fé og tíma. Ég get sagt það sem mitt álit, að ef nokkur möguleiki á að vera um hagnað af síldarútvegi eða síldarsöltun til útflutnings, þá er eina vonin til að ná því marki sú, að við getum tryggt kaupendum það, að þeim sé einungis boðin goð vara, sem reynist eins og hún er sögð. Við vitum, að okkur er það ofurefli að keppa við nágrannaþjóðirnar um veiðina hér við land. Okkur hefir ekki tekizt að færa tilkostnaðinn við veiðarnar í það horf, að við þar séum samkeppnisfærir við nágrannana. Hinu býst ég við, að á sviðum vöruvöndunar og vörugæða getum við verið samkeppnisfærir, því við ættum alltaf og ætíð að geta boðið betri vöru. En því aðeins getum við það, að við hofum opin augun fyrir því að setja þær reglur og gera þær ráðstafanir, sem þarf til tryggingar því, að varan verði alltaf góð og sé sú vara, sem hún er sögð vera, því það er eina leiðin til að vinna vörunni álit. En til þess verður að gera eitthvað svipað og gert er ráð fyrir í frv. Ed. Hitt er annað, að það eru sjálfsagt mörg smærri atriði í till. okkar Ed.manna, sem orkað geta tvímælis, enda er sennilegt að samkomulag hefði getað orðið um þau, ef það hefði verið reynt. Ég vil t. d. benda á það nýmæli, að yfirsíldarmatsmaður skuli vera aðeins einn. Ég lít svo á, að ekki sé hægt að búast við, að við matið náist svo mikið eftirlit, að hægt sé að búast við fullum árangri, þegar yfirmatsmaðurinn er ekki nema einn. En ég lít þó svo á, að þessi hugmynd um einn yfirsíldarmatsmann, sem ætlað er að ferðast á milli síldveiðistöðvanna, eigi þó í sjálfu sér við nokkur rök að styðjast. Það atriði býst ég því við, að hefði verið hægt að laga milli deilda, ef um það hefði verið að ræða. En þegar nú jafnmikið hér á milli og hér gerir, þá er það ofurskiljanlegt, að sjútvn. Ed. hafi komið fram með brtt., og gátum við auðvitað ekki komið með þær öðruvísi en þær voru síðast fram bornar í Ed., enda get ég lýst yfir því, að við sáum ekki nokkra minnstu ástæðu til að draga neitt úr þeim.

Ég geri ráð fyrir, að ég sé nú búinn að lýsa því svo vel fyrir þingheimi, í hverju ágreiningurinn er fólginn, og að hv. þm. sé orðið svo ljóst, hvað milli ber, að þeir geti nú gert sér grein fyrir, hvora leiðina sé heppilegra að velja í þessu máli. Ég tel, að við sjútvnm. í Ed. og Ed. öll, sem má segja að standi að þessum brtt. —- ég hygg, að það hafi verið eitt atkv., sem ekki var með þeim — höfum þá gert síðustu tilraun til lagfæringar á þessu máli. Ennfremur get ég lýst yfir því fyrir mína hönd, að færi svo, að brtt. okkar nái ekki samþykki, mun ég greiða atkv. á móti frv. eins og það liggur fyrir. Um afstöðu meðnm. minna þá, skal ég ekkert segja. Ég hefi ekki umboð til þess. En afstöðu mína hyggi ég á því, að ég tel, að það sé eins gott að hafa ekkert mat eins og að hafa þetta mat, sem ég tel kák eitt. En ég byggi líka afstöðu mína á öðru, sem sé því, að ég hefi mikinn grun um, að sú stefna sjútvn. Nd., sem kemur fram í frv., sé fram komin fyrir ákafa einstakra manna, sem ekki eru óvilhallir í málinu. Og mér er kunnugt um, að sömu menn eru til með að hafa ekkert mat. Og ég verð að segja fyrir mig, að ef ekki er hægt að koma matinu í það horf, að vænta megi, að trygging sé fyrir því, að þessi vara sé svo ábyggilega góð verzlunarvara, að menn geti selt hana eftir íslenzku matsvottorði, þá er eins gott að hafa ekkert mat og engin vottorð, nema vottorð hreppstjóra um það, að varan sé íslenzk framleiðsla og forsvaranleg verzlunarvara, eins og gilt hefir hingað til. Því ég er fullviss um það, að það líða ekki mörg ár þangað til þeir, sem mikið eiga í hættu við þennan atvinnuveg, koma til þingsins og segja: Við viljum fá mat á síldina. Og ég vænti, að löggjafarþing okkar verði alltaf svo skipað, að það bregðist vel við þeirri kröfu, og að þessi vara verði ekki íslenzku þjóðinni það harmabrauð í framtíðinni, sem hún hefir verið henni hingað til.