17.05.1932
Sameinað þing: 10. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (3314)

243. mál, síldarmat

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hv. þm. Ak. sagði, að síldarmatið hefði fyrst verið lögskipað 1919, en þetta er ekki rétt, það var gert 1911, en svo var þeirri löggjöf breytt. Ástæðan til þess var sú, að veiðiaðferðir breyttust. Menn fóru að veiða síld í stórum stíl í snurpinætur, svo að þá lentu oft mörg hund. og jafnvel þús. tunnur saman í eina kös. Við það jókst mjög hættan á því, að síld skemmdist. Þetta var ástæðan til þess, að mat á nýrri síld var lögskipað.

Þetta mat er ekki fyrirskipað vegna einstakra saltenda, heldur vegna heildarinnar, vegna álitsins á þessari vöru út á við. Það er sett því til tryggingar, að ekki sé söltuð eða seld sú síld, sem frá upphafi hefir verið óhæf til söltunar, en sú trygging fæst ekki nema með mati á síldinni nýrri, vegna þess að mest af síldinni er flutt út, þegar hún hefir legið örfáa daga í salti, og þá er útflutningsmat þýðingarlaust, af því að þá sjást ekki þær skemmdir, sem kunna að vera í henni og eru komnar í ljós eftir þá 20 daga, sem tilskipað er, að skuli líða frá söltun og þar til útflutningsmat fer fram.

Hv. þm. sagði, að saltendur síldarinnar mundu sjá sinn hag í því að hafa vöruna góða og því ekki salta nema óskemmda síld. Þetta kann að vera rétt í sumum tilfellum, en það er þó engin trygging fyrir kaupendur, því að þótt sumir kunni að vera svo samvizkusamir, að þeir salti ekki nema góða síld, þá er samt hætt við, að aðrir verði svo kærulausir, að þeir fyrir ímyndaðan stundarþagnað salti og selji síld, sem er skemmd. Þetta er það, sem á að fyrirbyggja með nýsíldarmatinu.

Sannleikurinn í þessu máli er sá, að ef nokkur eftirspurn er á síld, þá er hún flutt héðan til útlanda áður en hún er búin að liggja 20 daga í salti og getur því ekki komizt undir útflutningsmat. En ef síldin er ekki flutt út fyrr en hún hefir legið svo lengi í salti, að framkvæma megi útflutningsmat, þá stafar það af því, að þá er eftirspurnin að minnka. Er þá líklegt, að einmitt sú síld, sem útflutningsmatið hefir farið fram á, verði alls ekki seld, því að þá er markaðurinn yfirfylltur. Þetta mat, sem sjútvn. Nd. byggir allt á, er því þýðingarlaust. Má þess vegna alveg eins fella frv., því að þetta mat eins og Nd. vill hafa það kemur aldrei til með að hafa neina praktíska þýðingu.

Það verður mjög mikið vart við þann misskilning hjá mönnum, að síldarmatið sé sett til að bæta aðstöðu hvers einstaks síldarsaltanda. En það er ekki meiningin. Það er sett því til tryggingar, að sem mest almennt gagn verði af þessum atvinnuvegi. Það er sett til að tryggja það, að einstakir menn misnoti ekki aðstöðu sína til að salta og selja skemmda síld, þessum atvinnuvegi til tjóns.

Hér hefir mat á fiski verið tekið til samanburðar, en þar er tvennu ólíku saman að jafna. Þegar fiskur er metinn til útflutnings, þá sjá allir þær skemmdir, sem á honum kunna að vera. Með síldina er öðru máli að gegna. Þó að síldin sé farin að skemmast áður en hún er söltuð, þá kemur það ekki nærri því strax í ljós, og þá er það afarmikil freisting fyrir síldarsaltendur að salta hana og selja þannig, af því að hún getur ekki heldur komið undir mat áður en hún er flutt út. Svo er líka annað, að síldinni er miklu hættara við skemmdum heldur en fiski, bæði undan og eftir söltun.

Þá er og þess að gæta, að þótt síldin sé óskemmd, þá getur hún verið þeim annmörkum háð, að hún sé ósöltunarhæf. Hún getur verið svo mögur eða svo full af átu, að hún sé óhæf til söltunar. Þetta allt þarf að athuga, svo að ekki komi síld á markaðinn, sem er gersamlega óhæf til sölu, því að það verður framar öllu öðru til að eyðileggja þennan atvinnuveg.

Það er yfirleitt svo, að þegar þannig á að taka fram fyrir hendurnar á mönnum um þeirra framkvæmdir, þá rís mikil andúð gegn því. Menn hugsa þar mest um sinn eiginn hag, en minna um hag heildarinnar. Alþ. verður því að koma hér til skjalanna og sjá málinu borgið á þann hátt, sem þessum atvinnuvegi í heild sinni er fyrir beztu. Ef þingið vill ekki falla frá því, að eftirlit þurfi að vera með þessum atvinnuvegi, þá á það að samþ. lög eins og þau, sem sjútvn. Ed. leggur til, en láta sér ekki nægja það málamyndarmat, sem sjútvn. Nd. vill hafa, því að það hefir enga þýðingu fyrir verzlun með þessa vöru.