17.05.1932
Sameinað þing: 10. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í C-deild Alþingistíðinda. (3315)

243. mál, síldarmat

Guðbrandur Ísberg:

Mér var vel kunnugt um það, að lög um síldarmat voru til eldri en frá 1919, en ég miðaði við heildarlögin, sem voru sett 1919, en numin úr gildi með einkasölulögunum 1928.

Hv. 1. þm. Reykv. sagði, að við vildum fella síldarmatið niður. Það er alveg rétt, við viljum fella það niður sem skyldu. En við gerum ráð fyrir, að nýsíldarmat megi framkvæma hjá þeim síldarsaltendum, sem óska þess. Nú er það svo, að margir af þeim, sem líklegastir eru til að salta síld á næsta ári, eru gamlir síldarútgerðarmenn, sem eru þekktir erlendis. Ef þeir geta selt sína síld án þess að mat fari fram, þá er það af því, að þeir hafa tiltrú kaupendanna. Það má telja víst, að þeir, sem þekktir eru að vöruvöndun, gætu með tímanum selt sína síld ómetna, eins og Skotar. Aftur má búast við, að þeir sem ekki hafa selt síld áður, verði að láta meta sína síld, og þá eiga þeir eftir okkar till. ekki aðeins að geta fengið til þess lögskipaða matsmenn, heldur á útflutningsmat að vera skyldukvöð, sem enginn kemst undan.

Ég benti á það áðan, að fersksíldarmatið, sem framkvæmt hefir verið að undanförnu, hefir alls ekki verið tekið gilt af útlendum kaupendum. Þeir hafa, auk þess sem þeir hafa skoðað síldina, þegar þeir tóku á móti henni, haft menn á stærstu síldveiðistöðvunum, sem hafa fylgzt með allri meðferð síldarinnar frá því hún kom í land. Þeir treystu ekki íslenzka matinu betur en þetta og var það kannske ekki að undra, því að margir af matsmönnum höfðu aldrei að síld komið áður og voru því með öllu óhæfir til að leysa þetta starf af hendi. Mér er kunnugt um, að sumir þessara manna voru skólapiltar, sem aldrei höfðu fyrr á æfi sinni komið að síld. Það má vera, að þeim hafi fljótlega lærzt að þekkja skemmda síld frá óskemmdri, en allir sjá, hve mikil trygging slíkt er fyrir vöruvöndun, að nota óvana menn við matið.

Það mun vera svo, að hv. þm. hafi nú tekið afstöðu til þessa frv., og er ekki annað líklegra en að frv. verði fellt, og þykir mér það illa farið. Ég mun samt ekki sjá mér fært að greiða atkv. með þeim brtt., sem komið hafa fram frá Ed., og verður því að skeika að sköpuðu um það, hvort frv. verður samþ. eða ekki.