17.05.1932
Sameinað þing: 10. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 408 í C-deild Alþingistíðinda. (3318)

243. mál, síldarmat

Guðbrandur Ísberg:

Hæstv.. forsrh. lagði áherzlu á það, að sjútvn. Nd. hefði enga reynslu á bak við sínar till. Þetta er alveg rétt, og ég get líka viðurkennt, að það liggur reynsla á bak við till. sjútvn. Ed. En hvernig er þá sú reynsla? Það hefir verið framkvæmt svo kallað nýsíldarmat, en hvað segja erlendir kaupendur um það? Þeir hafa það að engu, og þess vegna verður að skoða það sem algerlega gagnslaust.

Hæstv. ráðh. sagði ennfremur, að sjútvn. Ed. byggði á till. manna, sem væru mjög; kunnugir þessum málum. Sjútvn. Nd. byggir líka á till. manna, sem ættu að vera þessu kunnugir, þar sem eru fyrrv. síldarmatsmenn á stærstu síldveiðistöðvum landsins. Hún byggir líka á till. ýmissa síldarútgerðarmanna, sem ættu að hafa fullkomna þekkingu á þessum málum. A. m. k. ættu síldarmatsmenn, sem við þetta missa stöðu sína og eru ekki útgerðarmenn, ekki að leggja þetta til af eigingjörnum ástæðum, því að þessi ráðstöfun væri þeim til tjóns, en ekki til hagnaðar. Ég vil því leyfa mér að halda því fram, að sjútvn. Nd. standi a. m. k. eins vel að víði að því er snertir upplýsingar og álit kunnugra manna.

Ég geri ráð fyrir, að þetta mat verði framkvæmt að nokkru eftir sem áður, þó að það sé ekki skylda. Hygg ég, að það verði einkum nýgræðingar, sem óska eftir því, af því að þeir eru óþekktir af öllum síldarkaupendum, en eins og ég tók fram áður, þá geri ég ráð fyrir, að eldri síldarsaltendur, sem standa í föstu sambandi við erlenda kaupendur og eru þekktir að vöruvöndun, þurfi ekki matsins með. Ég byggi hér á reynslu Skota, sem hafa stundað þessa útgerð miklu lengur en við. Þeir hafa ekkert skyldumat, og þó er síld þeirra viðurkennd að vera góð vara. Það sýnir, að það er hægt að framleiða góða vöru án þess að hafa skyldumat. Afkoma framleiðendanna er komin undir því, að varan sé góð, og það er nóg aðhald. Auðvitað getur það komið fyrir, að einhver salti og selji síld, sem er ekki góð, en þá yrði til þess, að sá maður þyrfti ekki að reyna að selja síld oftar. Mér þykir því næsta ólíklegt, að menn fari að gera leik að því að útiloka sig þannig með öllu frá þessum atvinnurekstri.

Ég get tekið undir það, sem hæstv. forsrh. sagði, að það er leiðinlegt að geta ekki fengið samþ. nein lög hér á þingi um síldarmat, en hinsvegar tel ég það ekki skipta svo miklu máli, að það geti á neinn hatt orðið síldarútgerðinni að falli, því að vitanlega má taka málið upp á næsta þingi, og verður vafalaust gert. Þá er það aðeins næsta sumar, sem engin lög verða gildandi um síldarmat. Er ólíklegt, að mikil vandræði hljótist af því, þar sem líklegt er, að aðeins örfáir menn salti síld næsta sumar.

Ég get því ekki fallizt á að greiða till. sjútvn. Ed. atkv., en mun halda mér við frv. eins og Nd. afgr. það.