04.05.1932
Neðri deild: 67. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 414 í C-deild Alþingistíðinda. (3337)

157. mál, verðtollur

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Þetta frv., sem liggur hér fyrir, er liður í stefnu, sem er oft að skjóta upp höfðinu hér á Alt., og er það mál alkunnugt og rökin fyrir því svo gömul, margupptuggin og þvæld á allan hatt, að við, sem ekki gátum fylgt þessu frv. í fjhn., töldum eiginlega enga þörf á að gefa út sérstakt nál. um það, vegna þess að við álitum nóg að gera bara grein fyrir, að við heldum við okkar fyrri skoðun á málinu og værum á móti því, sem hér er um að ræða.

Það má auðvitað lengi færa rök fyrir, að leiðinlegt sé, að ekki skuli vera hægt að láta innlenda framleiðslu ganga fyrir erlendri, og að það sé því rétt að vernda hina innlendu með svo og svo háum tollum eða algerðu banni á tilsvarandi erlendri framleiðslu. En rokin á móti því hafa verið og eru enn þau, að móti því kemur sú borgun, að varan verður dýrari og dýrtíðin eykst. Þetta er óhjákvæmilegt. Það væri æskilegt að finna upp eitthvert meðal til þess að sjá um, að menn gætu framleitt þessar vörur í landinu fyrir jafnt verð og þær útlendu eru, fluttar til landsins. En reynslan af öllum slíkum tollum verður sú, að varan hækkar, enda er það eina aðferðin, sem gerð er fyrir innlenda framleiðslu, að þeir, sent hana láta af hendi, geti fengið fyrir hana hærra verð; annað græddu þeir út af fyrir sig ekkert á þessu. Ég hygg, að það verði alltaf haldin veik röksemd fyrir slíkum tolli, að hægt sé að framleiða nóg af þessari og þessari voru í landinu, því að þessi takmörk má alltaf færa út. Það eru a. m. k. mjög margar vörur, sem hægt er að framleiða í landinu sjálfu, ef það má bara selja þær fyrir það verð, sem þarf til þess að framleiðslan borgi sig. Við gætum t. d. verndað innlendan eldspýtnaiðnað, ef við legðum nógu háan toll á erlendar eldspýtur. Þá mundi maður að síðustu fá svo hátt verð fyrir innlenda framleiðslu, að hægt væri að búa þær til í landinu. Það er vandi að segja, hvar á að nema staðar í þessum efnum. Það hefir verið til sú stefna með ýmsum þjóðum, að koma á þennan hátt upp nýjum iðngreinum, beinlínis á kostnað landsmanna. Þessi stefna hefir verið uppi í Bandaríkjum N.-Ameríku, enda fyrst tekin þar upp. Er það eitt af aðaldeilumálum meginflokkanna þar í landi, hvort þetta skuli gert eða ekki. Ég vil ekki líkja svona smávegis aðgerðum við beina verndartollastefnu, en hún styðst þó við sömu röksemdir; hún er angi af hinu sama. Ég ætla ekki að tala um það í þessu sambandi, hvað hér er oft hrein og bein hreppapólitík og eiginhagsmuna með í spilinu. Það kemur bezt í ljós, þegar farið er að tala um, hvað af hinni innlendu framleiðslu skuli vernda. Þá er hver höndin upp á móti annari. Skipasmiðirnir vilja láta tollvernda báta, bændurnir sínar afurðir, og þeir, sem setja upp verksmiðjur til að framleiða niðursoðna mjólk, vilja láta vernda niðursoðna mjólk. Má sjá þetta í grg. frv. að er hér t. d. eitt atriði, sem ég, með leyfi hæstv. forseta, skal lofa mönnum að heyra: „Nú er um það bil að taka til starfa mjólkurniðursuðuverksmiðja í Borgarnesi“. (PO: Hún er tekin til starfa). Jæja, ég býst við, að það sé ein ástæðan til þess að setja niðursoðna mjólk í hærri toll en nú er. Nú dettur mér ekki í hug að andmæla því, að það væri heppilegt, að hægt væri að koma upp slíkum atvinnurekstri og t. d. þessari mjólkurniðursuðuverksmiðju. Ég vil ekki amast við því; en spurningin er, hvort þeir, sem verða að neyta mjólkurinnar, eiga að bera kostnaðinn að meira eða minna leyti, í stað þess að láta styðja fyrirtækið af hinum sameiginlega sjóði landsmanna. Það hefir verið gert. Hið háa Alþ. hefir bætt í fjárl. nokkrum styrk til þess að koma á stað slíkum fyrirtækjum. M. a. hafa þessari Mjallarverksmiðju í Borgarfirði verið veitt nokkur verðlaun fyrir hvern kassa af niðursoðinni mjólk, sem hún hefir framleitt, og ég álít heppilegt að styðja þetta þannig, svo framarlega sem um heilbrigðan atvinnurekstur er að ræða að öðru leyti.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar. Maður smáþreytist á að tala alltaf um þetta sama, en verður þó að gera það með nokkrum orðum í hvert skipti, sem slíkar till. koma fram.