04.05.1932
Neðri deild: 67. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 415 í C-deild Alþingistíðinda. (3338)

157. mál, verðtollur

Haraldur Guðmundsson:

Ég og við Alþýðuflokksmenn munum greiða atkv. gegn þessu frv. Mér þykir rétt að benda hv. dm. á, að það fer nú eins og oftar svo, að einmitt í þeim málum, sem talin eru stefnumál flokkanna, bræðir Framsókn og Íhald sig mjög innilega saman. Þeir sessunautarnir, hv. þm. Borgf. og hv. þm. Mýr., sem teljast sinn úr hvorum flokki, gerast nú samflm. að þessu frv. Um íhaldsmanninn er ekkert sérstakt að segja í þessu sambandi. Það er í samræmi við stefnu hans flokks að afla ríkissjóði sem mestra tekna með tollum á vörum, hvort sem þær eru nauðsynlegar eða ekki. Hinsvegar hefir Framsóknarflokkurinn það á stefnuskrá sinni að fella niður tolla á nauðsynlegum varningi. Sú stefnuskrá er víst nærri árs gömul. En ef ég man rétt, þá var hún nýlega rifjuð upp í hinu ágæta blaði flokksins — Tímanum — og sérstök áherzla þar lögð á, að stefna flokksins sé að afnema nauðsynjatolla. Mér er spurn — hvaða afstöðu tekur Framsóknarflokkurinn til þessa þm. síns, sem hefir gerzt flm. þessa frv., sem hér um ræðir? Engum blandast hugur um, að grænmeti og niðursoðin mjólk eru nauðsynjavörur, en samt sem áður leggja flm. til, að á þær sé lagt, til viðbótar öðru innflutningsgjaldi — þ. e. vörutolli — 30% af innkaupsverði. Ekki er nú smátt af stað farið, að taka þriðjung innkaupsverðsins til viðbótar sem verðtoll. Egg og eggjaduft er nú tollað 15%, en á eftir frv. að tollast með 30%, eða hækka um helming, og þó hvílir ekki óverulegur tollur á þeim, þar sem er vörutollur, sem ekki fellur einungis á vöruna sjálfa, heldur og á umbúðir allar. nú geri ég ráð fyrir, að flm. muni halda því fram, að þetta sé ekki sérstaklega gert til að afla ríkissjóði tekna, heldur til þess að vernda innlenda framleiðslu, sem þeir munu kalla svo. Ég lít svo á, og er í því efni að miklu leyti sammála hv. 4. þm. Reykv., að það hafi sýnt sig, að afleiðing verðtolla sé yfirleitt sú, að kaupendur fái dýrari og verri vöru en ella myndi. Þessi hefir raunin orðið undantekningarlaust þar, sem ég þekki til. Verndartollar hafa, þar sem þeim hefir verið beitt, komið fram í hækkuðu verði og óvandaðri framleiðslu. Ef Íslendingum lánast að búa til jafngóðar vörur og geta selt þær með svipuðu verði og erlendar, þá er ég ekki í neinum vafa um, að þær vörur myndu fremur verða keyptar en hinar, sem að eru fluttar. Ég vil benda á, að þótt í engu sé breytt lagabókstaf frá því, sem nú er, þá eru þessar vörutegundir, svo sem garn, egg og mjólk, mjög sterkverndaðar. Á þær vörur, sem inn eru fluttar, fellur fyrst og fremst vörutollur, flutningsgjald og fleiri kostnaðarliðir, sem fellur algerlega niður að því er snertir innlenda framleiðslu. Ég hygg, að það sé að nokkru rétt — a. m. k. hvað snertir einstaka landshluta —, að nóg sé hægt að framleiða þar af eggjum fyrir íbúana. En mér er heldur ekki kunnugt um, að þar, sem svo er ástatt, sé flutt inn nokkuð af erlendum eggjum. Mjólkurniðursuðuverksmiðjan í Borgarfirði er nýtekin til starfa. Mjöll, sem hefir starfað þar undanfarið, hefir notið styrks úr ríkissjóði ásamt þeirri vernd, sem vörutollur til viðbótar innflutningskostnaði veitir. Mjöll hefir fengið verðlaun á hvern einasta kassa. Voru þau að vísu lækkuð nokkuð, en síðast er þau voru veitt, munu hau hafa verið 1,50 kr. fyrir hvern kassa. Ég get undir sumum kringumstæðum verið því meðmæltur, að á þennan hatt sé stutt í byrjun að slíkum atvinnurekstri og að verðlaun séu veitt á svipaðan hátt og í þessu tilfelli. En að ætla sér að styðja að því með því að gera vöruna dýrari fyrir neytendur og mega eiga það víst, að með því yrði vöruvöndun verri, er fjarstæða. Ég mun því, eins og ég hefi sagt, greiða atkv. gegn þessu frv., jafnvel þótt brtt., sem flestar eru til nokkurra bóta, verði samþ.

Ég get ekki stillt mig um að benda á í sambandi við frv., að mér virðist ekki gerhugsað hjá hv. flm., þegar þeir halda því fram, að þeir séu að styðja að aukinni atvinnu í landinu. Í frv., eins og það er upphaflega borið fram, er gert ráð fyrir, að allt garn, hvort heldur er prjónagarn eða annað, sé tollað með 30%. Nú er kunnugt um að a. m. k. ein, ef ekki tvær stórar vinnustofur vinna mikið úr þessu garni ásamt innlendu garni, sem notað er að einhverju leyti með, og hygg ég, að við að vinna úr þessu erlenda garni hafi skapazt vinna fyrir allmargt fólk. Annar flm. hefir séð sig um hönd og lagt til, að garnið verði ekki fært upp nema í 15%, en það er þó nóg til þess að reyna að stöðva þennan atvinnurekstur. Það þýðir ekkert fyrir flm. að reyna að berja höfðinu við steininn. Landsmenn kunna ekki við að ganga klæddir í dúka úr íslenzkri ull eingöngu; mönnum líkar ekki sá fatnaður, og það er ekki til neins að ætla að kúga menn með tollum til að taka upp hann sið. Með bættri vinnslu á íslenzkri ull gæti farið svo, að hér á landi yrðu fleiri tegundir dúka, sem landsmönnum líkaði. Ennfremur geri ég ráð fyrir, að okkar ull sé sérstaklega heppileg til þess að vinna úr henni ákveðna voru, sem selzt gæti á erlendum markaði, en það eru gróf teppi, dúkar og annað þessháttar. Auk þess segja fróðir menn, að ef fengnar væru vélar til að aðgreina þelið og togið, mæti vinna úr toginu falleg og dyr teppi, sem auðvelt væri að selja á erlendum markaði fyrir talsvert hatt veð. Í þá átt ætti að stefna hér hjá okkur, en ekki ætla sér, með jafnóhæfilegri tollaálagningu og hér er gert ráð fyrir, að þvinga landsmenn til að nota hann varning, sem þeir geta ekki látið sér lynda.

Annars er ekki ástæða til að fjölyrða um þetta, en ég vil taka undir með hv. 4. þm. Reykv., að maður verður dálítið þreyttur á að tala um þessi sömu atriði. hér hafa komið fram tvo til þrjú þing frv. til 1. um verðtoll á niðursoðinni mjólk, en þau hafa alltaf verið drepin hér í d., og vona ég að hugur hv. þdm. sé enn hinn sami, að hallast ekki að því að taka upp þessa verndartollastefnu, sem hér er farið fram á.