04.05.1932
Neðri deild: 67. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 418 í C-deild Alþingistíðinda. (3339)

157. mál, verðtollur

Bergur Jónsson:

ég ætla ekki að tala almennt um greinar frv., en aðeins mæla með brtt., sem ég hefi leyft mér að bera fram ásamt hv. 1. þm. Skagf. En hv. þm. Seyðf. tók að mestu leyti af mér ómakið. Í hinu upphaflega frv. er gert ráð fyrir að setja prjónagarn, sem eigi hefir áður verið verðtollað, undir hærri verðtollsflokkinn — 30%. Við höfum lagt til á þskj. 354, að garn verði algerlega tekið út úr frv. og undanþegið verðtolli. En hv. flm. frv. hefir farið meðalveginn og lagt til, að það verði sett undir 15% toll. Ég get ekki gert mig ánægðan með þessa millileið, en vildi, að það fengi að vera áfram einungis undir þungatolli eins og hingað til. Eins og hv. þm. Seyðf. benti á, er mikill iðnaður, sem hefir skapazt hér á landi einmitt með erlendu prjónagarni, og einmitt vegna þess, hve okkar ull er gróf og hörð, er ekki hægt að nota hana til þeirra hluta, sem erlent prjónagarn er nú notað til. Ég get bent á verzlanir hér í bænum, sem einungis verzla með íslenzkar prjónavörur, en sem eru að miklu leyti úr erlendu prjónagarni, og þýðir ekki, eins og hv. frsm. n. sagði, að tala um, að hér sé um hégóma að ræða. Ef skapa skal innlendan iðnað á einhverju sviði, verður hann að framleiða vörur, sem kaupendur vilja kaupa, og vörur úr íslenzku garni þýðir ekki að bjóða. Þessi till. hv. flm. um að taka erlent prjónagarn undir verðtollslögin verður einungis til þess að kippa úr þessum vísi til innlendrar framleiðslu, sem þarna hefir skapazt, og er því að mínu áliti til ills eins.