04.05.1932
Neðri deild: 67. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í C-deild Alþingistíðinda. (3343)

157. mál, verðtollur

Bjarni Ásgeirsson:

ég býst við, að hv. þm. hafi tekið eftir þingplaggi einu frá einum af kunnustu listamönnum landsins. En með þessu plaggi taldi hann sig afhenda þinginu allstóran sjóð, sem hann taldi listamenn landsins eiga kröfu til frá landinu, en þeim ekki verið greitt. Listamaðurinn lagði svo fyrir, að þingið ávaxtaði fé þetta, en sjálfur vildi hann þó fá nokkur hundruð þúsunda útborguð til sinna eigin nota. En auk þess átti að greiða 50 þús. vegna hanzkagerðar, þannig að það væri styrkur til þeirra kvenna, er vildu koma á hanzkagerð, og sem þær nytu, gegn því að þær hættu við hanzkagerð, meðan það atriði væri rannsakað, hve margir útlendingar töpuðu atvinnu, ef hafin væri hanzkagerð hér á landi. Ég hygg nú, að margir hv. þm. hafi brosað að þessu. En ég held þó, að hinn virðulegi listamaður hafi hitt hér naglann á höfuðið. Það er eins og hér sé talað út úr hjarta margra hv. þm. Þegar till. hafa verið gerðar í þá átt að vernda landsins eigin framleiðslu, þá hafa í báðum deildum þingsins jafnan fundizt nógu margir hv. þm. til að koma í veg fyrir þær tilraunir, og þá um leið orðið málsvarar þeirra erlendu manna, er atvinnu töpuðu, ef innlend framleiðsla væri aukin. Það var gerð tilraun til að bæta hér framleiðsluskilyrði á kartöflum, með því að tryggja innlendum framleiðendum forgangsmarkað. Það frv. var drepið hér í þessari deild, með aðstoð sumra bænda, sem mátti þó heita furða. Þá var kartöflukjallarinn. Hann fór að vísu gegnum þessa deild, en þar var það hv. Ed., sem vann miskunnarverkið fyrir hina útlendu framleiðendur. Þá var gerð till. um það, að veita stuðning til að koma á fót innlendri skógerð úr innlendum skinnum og tryggja þar með innlendum höndum vinnu og íslenskri skinnavöru markað. En sú till. var drepin. Þá var farið fram á lítilsháttar aðstoð til að koma upp hanzkagerð. Það var líka drepið. Í stuttu máli: Hver tilraun, sem gerð hefir verið til að auka innlenda framleiðslu og þá jafnframt hefir horft til atvinnubóta — allar drepnar.

Það er ekki ástæða til að tala langt mál um sama efni og áður er þrautrætt. Ég verð þó, til viðbótar því, sem hv. þm. Borgf. þegar hefir minnzt á, að svara nokkrum atriðum, er fram hafa komið hjá hv. andmælendum þessa frv. Ég verð þá fyrst að segja, að ég skil ekki, á hvern hatt við Íslendingar, frekar en allar aðrar þjóðir, eigum að komast út úr þeim erfiðleikum, er að okkur steðja nú, ef ekki á þann hatt, að styðja sem bezt að því að auka framleiðsluna innanlands. Það er verið að reyna að tryggja íslenzkum framleiðendum betri markað og íslenzkum mönnum meiri vinnu, með því að framleiða vöruna í landinu sjálfu og fækka á hann hátt þeim erlendu vörum, sem streyma inn yfir þjóðina. Þá má segja, að Alþingi sé sannkallað kærleiksheimili erlendum framleiðendum, ef það, að betra sé til útlanda að sækja en heima að taka, því að það stendur hvergi skrifað, að maður — eða alþingismaður — eigi að elska náungann hærra en sjálfan sig.

Þeir hv. þm., sem andmælt hafa frv. þessu, hafa slegið því fram, að verndartollar gerðu vöruna dýrari og gerðu hana verri. Við skulum segja, að varan verði ofurlítið dýrari í svipinn. En það er ekki aðalatriðið, að framleiðendur fái ofurlítið hærra verð fyrir vöruna. Aðalatriðið er, að neytendurnir hafi peninga til þess að kaupa fyrir. Það er hægara fyrir mann, sem hefir atvinnu, að kaupa vöru, þótt ofurlítið dýrari sé, en ef hann er atvinnulaus. Atvinnulausum manni kemur það að litlu gagni, þó að honum sé bent á hundódýra vöru, ef hann hefir ekki peninga til að greiða hana með, og gildir þar sama um, hvort sem varan er komin annarsstaðar frá eða framleidd í landinu sjálfu. Þess vegna þurfum við fyrst og fremst að hlynna að því, að atvinnulíf þjóðarinnar haldi áfram að blómgast, svo að nóg atvinna verði í landinu sjálfu. Og undirstaðan, sem reisa verður á, er sú að vernda og styðja framleiðendurna, svo að atvinnurekstur þeirra geti borið það kaupgjald, sem nú er heimtað.

Ég skal ekki neita því, að sá stuðningur, sem þessu frv. er ætlað að veita íslenzkum framleiðendum, geti orðið þess valdandi, að varan hækki eitthvað örlítið í bili. En ég vil bæta við, að erlendis er reynslan sú, þar sem unnið hefir verið að því að koma fótum undir atvinnurekstur þjóðanna, að þá eykst framleiðslan og jafnframt framboð vörunnar, en með auknu framboði lækkar varan í verði, og er það samkv. því heimslögmáli í viðskiptum, er gildir um framboð og eftirspurn. Ég skal nefna sem dæmi, að fyrir nokkrum árum var lögleiddur tollur á innfluttum eggjum í Noregi. Þegar tollur þessi kom á, hækkaði verð á eggjum, en framleiðslan færðist í aukana, svo að eftir örfá ár voru Norðmenn orðnir sjálfum sér nógir og þurftu engin egg að flytja inn, en jafnhliða fellu eggin í verði niður í eða niður fyrir það verð, sem var áður en tollurinn var settur. Þetta varð aðeins til þess að hleypa fjöri í atvinnureksturinn, og gat því, með aukinni framleiðslu, borið sig, þótt lægra verð fengist fyrir vöruna en áður.

Ég er sannfærður um, að þó að tollar eins og þeir, sem frv. þetta fer fram á að verði settir, hækki vöruverð í bili, þá muni þess skammt að bíða, að vörurnar lækki aftur í verði fyrir aukið framboð og aukna kunnáttu framleiðenda. Slík vernd löggjafarvaldsins mundi því verka eins og örlítill stofnstyrkur til framleiðenda, og fæ ég ekki betur sé en það væri löggjöfum þjóðarinnar til sóma.

Hv. þm. Seyðf. og ýmsir fleiri, sem mælt hafa gegn frv. þessu, telja, að engin hætta sé á, að innlend vara verði ekki keypt, ef hún sé jafngóð og vönduð og sú erlenda. M. ö. o. að ef innlend framleiðsla er samkeppnisfær við þá útlendu, þá kaupi menn hana. En þetta held ég að sé nokkuð hæpið, því að heyrt hefi ég menn segja: ef íslenzk vara er betri og ódýrari en sú erlenda, þá er skylt að kaupa hana, — annars ekki.

Í þessu sambandi vil ég minna hv. þm. Seyðf. á, að eitt af áhugamálum hans er að vernda innlenda verkamenn fyrir innflutningi erlendra verkamanna og að hann berst fyrir því, að innlendir verkamenn sitji fyrir þeirri vinnu, sem til fellst í landinu. Nú vil ég svara honum í sama tón og segja, að það sé engin hætta á því, meðan íslenzkir verkamenn eru ekki kauphærri og vinna betur en þeir erlendu, að við tökum ekki þá íslenzku fram yfir þá útlendu. En fyrir þessu vill hv. þm. Seyðf. ekki beygja sig. Hann vill banna erlendum verkamönnum að vinna hér, þó að þeir bjóði sig fyrir miklu lægra kaup en þeir íslenzku. Á þennan hátt hefir hv. þm. viljað hjálpa innlendum verkamönnum.

En hvað eru íslenzkir bændur annað en verkamenn, og er ekki verið að fara fram á sömu vernd þeim til handa og hv. þm. Seyðf. hefir beitt sér fyrir í því dæmi, er ég nefndi? ég fæ ekki betur séð en að svo sé. Með því að banna innflutning erlendra verkamanna er verið að tryggja innlendum mönnum vinnu í landinu sjálfu. Með frv. okkar er verið að tryggja bændum þau verkalaun fyrir vinnu sína, að þeir geti lifað og starfað. Og ég fæ ekki skilið, þó að þeir heiti bændur, að þá megi ekki tryggja þeirra vinnu, svo þeir geti lifað eins og aðrir verkamenn í sínu eigin landi.

Ég hefi litlu að svara hv. þm. Vestm., enda hefir meðflm. minn, hv. þm. Borgf., gert það vel og rækilega. En þó get ég ekki látið vera að svara aths., er hann beindi til mín sérstaklega. Hann komst svo að orði, að það væri í mesta máta ósmekklegt, er menn kæmu með lagasetningu til þess að tryggja sína eigin hagsmuni, og nefndi í því sambandi grænmeti, sem ég hefði orðið til að rækta í allstórum stíl hin síðari ár.

Það er ekki nýtt fyrir okkur hv. þm. Borgf. að fá slíkar sendingar frá hv. þm. Þetta er aðeins áframhald af vinarkveðjum, er þeir voru að smásenda okkur á meðan deilan stóð um kartöflurnar hér í hv. deild. Ef það á að verða venjan, að enginn þm. megi bera fram á þingi neitt það mál, er á einhvern hátt kann að snerta hagsmuni hans, þá verða bændur að haga öðruvísi vali fulltrúa sinna og velja þá menn, sem hvergi koma nærri atvinnurekstri þeirra. Ég skal fúslega játa, að í hvert skipti sem ég er að berjast fyrir hagsmunum bænda, er mér ljóst, að ég get það ekki á annan hátt en stuðla að eigin hagsmunum jafnhliða. Ég verð því annaðhvort að gera, eigi ég að komast hjá því, að leggja niður umboð mitt eða hætta búskap og taka upp aðra atvinnu. En það eru fleiri stéttir en bændur, sem fulltrúa eiga úr sínum hópi hér innan veggja. Og ég veit ekki betur en að hv. þm. Vestm. noti hvert tækifæri, sem gefst, og haldi langar ræður til að berjast fyrir hagsmunum sjávarútvegsins. Er hann þá ekki um leið að berjast fyrir sínum eigin hagsmunum? Og er það þá ekki nákvæmlega sama smekkleysið, sem hefir hent hann og okkur hv. þm. Borgf.? Annars mætti þá líka ráðleggja Vestmannaeyingum, þegar þeir velja sér fulltrúa næst, að taka bónda ofan úr sveit, sem aldrei hefði á sjó komið og helzt aldrei sjó séð, og fela honum að fara með umboð sitt á Alþingi. Vænti ég ekki annars en að hv. þm. Vestm. taki þessari uppástungu vel og viðurkenni þetta eina ráðið til þess að forða fulltrúa Vestmannaeyja frá því smekkleysi að berjast fyrir hagsmunum sínum jafnhliða hagsmunum kjósendanna.

Hv. 2. þm. Reykv. var nú miklu sanngjarnari í mótmælum sínum en áður í deilum um kartöflurnar og vildi nú ekkert lá okkur flm., þó að við berðumst fyrir hagsmunum þeirrar stéttar, sem við heyrðum til og færum með umboð fyrir á Alþ. Var þarna um annað hljóð að ræða en áður kvað við úr sama horni og öðruvísi framkoma hans en hv. þm. Vestm. Hv. 2. þm. Reykv. vildi slá því föstu, að vernd frv. væri einhliða — snerti aðeins hagsmuni framleiðenda, en ekki neytenda, og það dygði ekki að bera fram mál, sem væri hagsmunamál nokkurra manna, er framleiða vöruna, en ekki hinna, sem neyta hennar.

En á hverju lifum við öðru en framleiðslu lands og sjávar? Öll önnur starfsemi byggist á heim grundvelli og allt líf í landinu. Þess vegna er nauðsynlegt, að framleiðslan geti tekið sem mestum þroska, geti blómgazt og þrifizt, því að í henni lifir þjóðin. Ef rætur trésins visna og kulna, þá visnar tréð og kulnar alveg upp í toppinn.

Þá vildi hv. 2. þm. Reykv. halda því fram, að Íslendingar væru á engan hátt bundnir við gerðir annara þjóða í tollamálum, og var með því að reyna að hrekja rök þau, er hv. þm. Borgf. hafði borið fram í máli þessu. Hv. þm. Borgf. sýndi fram á, að nú væri svo komið um allan heim, að þjóðirnar teldu nauðsynlegt að vinna að sínum eigin hagsmunum og hefðu í því skyni hlaðið um sig tollmúrum á öllum sviðum til þess að auka framleiðslu sína. Hv. 2. þm. Reykv. taldi þetta rétt vera, en hélt því hinsvegar fram, að það væri ekki eftirsóknarvert fyrir Íslendinga að taka þetta upp, enda hefði slík stefna ekki verið lengi ríkjandi í heiminum. En eigi þetta við hjá öðrum þjóðum, hlýtur það einnig að eiga við her. Það er sama, hvaða skoðun við Íslendingar höfum á þessu, ef það hentar öðrum þjóðum, þá verðum við að dansa með, þó að sumum sé það óljúft. Þegar aðrar þjóðir loka til hálfs markaði fyrir okkur, þá neyðumst við að gera hið sama, til þess að reyna að skapa markað í okkar eigin landi fyrir þær vörur, sem við getum framleitt sjálfir, en höfum áður sótt til þeirra. Við verðum alltaf að beygja okkur undir það, sem stærri löndin vilja vera láta. Það er t. d. fávizka að vera að deila um, hvort hér eigi að koma á kommúnistísku þjóðfélagi eða ekki. Um leið og stóru löndin eru ákveðin í því máli — um leið og komúnisminn er kominn þar á, þá væri hann samstundis kominn hingað. Það er sama í þessu falli sem öðrum stærri málum. Við Íslendingar verðum að dansa með og fara að dæmi stærri þjóða, ef við eigum að hafa rétt til þess að lifa á okkar eigin landi.

Ég skal nú til stuðnings máli mínu lesa hér upp úr skýrslu nöfn nokkurra landa, sem komið hafa á hjá sér verndartollum, svo að menn sjái, að þetta er ekkert nýmæli í heiminum. Öll þessi lönd, er ég nefni, komu tollunum á hjá sér síðari hluta ársins í fyrra.

Þar er fyrst að telja Ítalíu, sem hækkaði innflutningstolla 24. sept. um 15%. Um sama leyti varð mikil tollhækkun í Póllandi. Í Indlandi var hækkaður tollur á vélum og öðrum iðnaðarvörum 30. sept. í Argentínu var innflutningstollur hækkaður 8. okt. um 10% og sama dag í Suður-Afríku um 5%. Í Finnlandi hækkuðu tollar um miðjan nóvembermánuð á fjöldamörgum vörum, og í Frakklandi um sama leyti frá 7–15 %. 22. nóv. hækkaði Holland toll á ýmsum fæðuvorum um 10%. Í Englandi er settur 50% tollur á ýmsar iðnaðarvörur 25. nóv. og 27. s. m. hækkar tollur í Danmörku á óþarfavarningi. Sama dag hækkar Belgía toll á kjöti, smjöri, smjörlíki o. fl. vörum. 10. des. hækkar Brasilía innflutningstolla frá 20–30%. Í Englandi er settur tollur á grænmeti og blóm 29. des., og allir vita um 10% tollinn, sem Englendingar leggja á fisk og fiskmeti. Og loks hefir Ítalía takmarkað innflutning á nautakjöti frá síðustu áramótum.

Það er sama, hvert við lítum, alstaðar hafa verið settir tollar til þess að vernda og auka innlenda framleiðslu, og fæ ég ekki séð, hvernig Íslendingar eiga að bjargast, þegar þeirra framleiðsla er tolluð af öðrum þjóðum. Því skyldi menn ekki vilja nota tækifærið til þess að auka vinnu í landinu með því að framleiða sem mest úr skauti jarðar af því, sem við þurfum til lífsviðurværis? Þegar settur er tollur á fiskinn okkar, því megum við þá ekki setja toll á grænmeti og egg, er við flytjum inn frá öðrum þjóðum? Það er deginum ljósara, hvort sem okkur þykir það leitt eða ljúft, að við Íslendingar neyðumst til að verja hendur okkar og fylgja í því dæmi annara þjóða.

Hér er að vísu ekki um neina stórkostlega fjárhæð að ræða, sem sparaðist landinu við það, að Íslendingar gætu sjálfir framleitt vörur þessar. Þó vil ég geta þess, að árið 1929 nam innflutningur mjólkur 517550 kr., og sama ár voru fluttir inn garðávextir og grænmeti fyrir 427 þús. kr. og egg fyrir röskar 140 þús. kr. M. ö. o. er hér að ræða um þrennskonar landbúnaðarvörur, sem við á einu ári fluttum inn í landið og greiddum fyrir röska eina millj. króna. Upphæðin er ekki stór, en þó gæti ég trúað, að bankastjórar okkar veltu vöngum, þegar farið væri að biðja um gjaldeyri, sem næmi þessum innflutningi, og margir mundu þá taldir stórbændur, ef þessi upphæð rynni í þeirra vasa, í stað þess að fara til útlanda. Og þó að ekki hafi verið innflutt meira en þetta, þá er ekki þar með sagt, að það hafi verið nóg, eða að í landinu sé ekki þörf á því, að lifað sé meira á þessum vörum. En hitt er víst, að landið getur fætt langtum fleiri menn á þessum vörutegundum en það hefir gert, og við það sparast mikið. Og þessi litli tollur, sem farið er fram á með frv., að lagður verði á þessar vörutegundir, hann er ekki annað en hjálp til að koma auknu fjöri og getu í menn að framleiða sem mest, er síðan haldi áfram að framleiða meiri vöru og ódýrari en var meðan allt var gert af þjóðfélaginu til að þvælast fyrir og varna því, að hægt væri að notfæra sér hann markað í landinu sjálfu, sem bæði guð og menn höfðu ætlazt til frá upphafi.