04.05.1932
Neðri deild: 67. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í C-deild Alþingistíðinda. (3344)

157. mál, verðtollur

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Það hafa nú verið haldnar alllangar ræður með þessu máli, og lítur því út fyrir að sóknarlið verndartollastefnunnar sé enn viljugra en við, sem erum að streitast á móti, enda er það að vonum og ekki óvanalegt.

Ég ætla þá að víkja að nokkrum atriðum í ræðu hv. þm. Mýr. mér virtist hann hálfpartinn drótta því að okkur andmælendum frv. — einkum þó hv. þm. Vestm. —, að við beittum óbilgirni í ræðum okkar. En mér dettur í hug gamla spakmælið: Ber þeirri hendi hreinni að vera, sem afþvær annara saur. Hv. þm. var sem sé ekki alveg laus við ósanngirni í okkar garð. Hann vildi koma á okkur því ámæli, að við værum að ganga erindi útlendinga og ástæðan væri sú, að af því að hér ættu erlendir framleiðendur hlut að máli, þá stæðum við á móti verndartollum. Jafnframt bar hann okkur á brýn, að við færum fram yfir skylduboðorð kristindómsins, að elska náungann eins og sjálfa okkur, og sagði, að við vildum elska erlenda framleiðendur meira, og að fara mundi illa fyrir okkur af því við værum kristnir. Honum þótti við óþarfir í umr. þessum, og kemur þá til að athuga, hvort hagsmuni þjóðfélagsheildarinnar sé verið að vernda eða skemma með frv. þessu.

Við játum, að tollvernd hjálpi þeim hop manna, sem nýtur hennar. En inn í þá hagsmuni flettast ótalmargt fleira en þeir gera sér grein fyrir, sem hér berjast mest fyrir tollvernd. Það þarf ekki nema að benda á, að sú þjóð, sem er elzt, reyndust og vitrust í fjármálum og þjóðmegunarfræði, en það eru Englendingar, hefir staðið áður og lengst streizt á móti verndartollum. Og það er fyrst nú, er allir níðast á þeim, að þeir láta undan og taka þá upp. Og mun þar hafa mestu raðið um, að þeir vita aðstöðu sína betri gagnvart Frökkum. Og Englendingar, sem eru fríverzlunarmenn, hefðu aldrei tekið upp þessa stefnu af því, að þeir telji hana þjóðhagslega betri, heldur nota þeir hana í bili, af því að þeir voru neyddir til þess vegna þess viðskiptastríðs, er þeir eiga í.

Hv. þm. bar fram eina röksemd, sem ég tók ekki eftir í ræðu hv. þm. Borgf., en það er sú röksemd, sem erlendis er oftast borin fram tollverndinni til stuðnings. það er um þá atvinnumöguleika, sem skapist í landinu, ef tollurinn er lagður á. Menn hafa sagt sem svo: „Er það nokkur meining að láta þúsundir og jafnvel milljónir manna ganga atvinnulausa í landinu, en styðja ekki okkar framleiðslu þannig, að menn geti fengið tækifæri til að vinna að þessu í landinu sjálfu“. Þetta er sú meginröksemd, sem þar hefir komið fram, þó að henni hafi ekki mikið, verið beitt hér. En þessi röksemd er mjög tvíeggjuð, og sest það bezt, ef reynslan er athuguð, því að í því landi, þar sem tollverndin hefir allra mest verið notuð, sem sé Bandaríkjunum, hefir nú að undanförnu verið meira atvinnuleysi en viðast annarsstaðar. Bandaríkjamenn hafa þannig fengið að sjá, að með tollverndinni skapast svo mikil dýrtíð, að framleiðendur af þeim sökum eiga við eins mikla erfiðleika að stríða eins og þótt þeir þyrftu að keppa við framleiðslu annara þjóða.

Þá er það eitt enn, sem komið hefir fram sem rök í þessu máli, en það eru gjaldeyrisvandræðin. Menn segja, að það sé hart að verða að biðja bankana um hundruð þúsunda til að kaupa vörur, sem hægt er að framleiða í landinu sjálfu. Þetta er einhliða röksemd. Það er ekki nóg út af fyrir sig, þó að bankarnir séu ekki beðnir um mikið af erlendum gjaldeyri; önnur hlið málsins er að afla erlends gjaldeyris fyrir bankana. Ég er alls ekki viss um, að bankarnir standi neitt betur, þó að beðið sé um minni gjaldeyri heldur en að þeim krafti sé beitt til að framleiða þessa vöru, sem aflar erlends gjaldeyris.

Ég skal játa, að hv. þm. Mýr. kom með eina röksemd, ef hún er örugg. Hún var sú, að við það að koma verndartolli ykist framleiðsla landsmanna svo mikið, að innlend samkeppni mundi lækka veriðið jafnmikið og erlend samkeppni hefir gert áður. Í því efni vil ég aðeins segja það, að það er betri einn fugl í hendi en tíu á þaki. Það er bara spurningin, hvort þetta dugir. Það er ekki hægt að byggja þar á meira og minna óljósum sögum af eggjaframleiðslu Norðmanna. Ég veit ekki, eftir hve góðum heimildum hv. þm. Mýr. hefir þær frásagnir. Ég vil alls ekki vera að væna hv. þm. þess, að hann sé að skrökva að okkur, en þó að svona lagað geti komið fyrir í einu tilfelli, þá er ég hræddur um, að hér hjá okkur, þar sem allt er svo einfalt og í smáum stíl, mundi þetta ekki koma til.

Það er einnig sennilegt, að það yrði svo t. d. með framleiðslu á niðursoðinni mjólk, að þótt þessi tollur yrði lagður á,

Þá yrði þessi vara ekki framleidd á fleiri stöðum en svo, að þar væru gerðir samningar á milli, eða jafnvel að þessi fyrirtæki yrðu sameinuð undir eina stjórn, eins og varð með ölframleiðsluna hér. Ölgerðirnar voru tvær, en nú eru þær sameinaðar í eitt. Ég heyrði líka að hv. þm. Borgf. sagði, að Baulufélagið gæti vel framleitt alla þá niðursoðna mjólk, sem þarf handa landsmönnum. Það væri mjög óskandi, að það gæti komizt fram, þó að það virðist nokkuð langt í land með það.

Það væri vel athugandi að vernda einhverja framleiðslu, sem sennilegt væri, að gæti aukizt svo mikið, að verð hækkaði ekki. En það er aðalgallinn á tollverndinni hvað verðið á þeirri vöru, sem vernda á, hækkar mikið. Ég get þessa alls til að sýna, hve opin eyrun ég hefi fyrir sanngjörnum röksemdum frá flm. frv. Og ég vil eins óska, að þeir hefðu jafnopin eyru og sanngjarnan hug til röksemda okkar, sem erum að verja þá, sem eiga að neyta þessarar vöru.

Ég skrifaði ekki mikið hjá mér úr hinni löngu ræðu hv. þm. Borgf. Ég bjóst ekki við, að umr. yrðu svo ákaflega langar um þetta mál, af því hvað mikið hefir verið rætt áður um mál náskylt þessu. Hann sagði, að það væri ástæðulaust að ímynda sér, að þessar vörur yrðu nokkuð dýrari, þó að samkeppni erlendra vara við þær væri útilokuð með þessum tolli. Þetta er nákvæmlega einkasöluröksemd. Það er alltaf sagt, að bezt sé, að einn fáist við að framleiða eða verzla með hverja vörutegund, það sé engin hætta á, að verðið hækki fyrir það. En þetta sannfærir ekki þá menn, sem eru þeirrar skoðunar, að einkasölufyrirkomulagið sé ekki betra. Reynslan hefir sýnt, að það er ekkert, sem tryggir, að framleiðslan sé sem bezt og ódýrust, nema samkeppnin. Menn vanda voru sína ekki eins mikið, þegar þeir vita, að fólk verður að kaupa hana, hvort sem hún er góð eða ekki, og þeir hirða ekki um að selja voruna fyrir lægra verð, þegar þeir vita, að menn eiga ekki annars úrkosta en að kaupa af þeim. Það þarf ekki annað en að horfa á einkasölustofnun við hliðina á samkeppnisstofnun til að sannfærast um þetta. Við skulum koma inn á pósthúsið eða símstöðina og svo inn í vefnaðarvöruverzlun og sjá muninn á afgreiðslunni. Hvernig ætli það gengi í þeirri vefnaðarvöruverzlun, sem setti hátt búðarborð þvert yfir búðina og hefði aðeins 2–3 menn við afgreiðsluna og fjölgaði ekki mönnum t. d. fyrir jólin eða á öðrum þeim tíma, þegar mest er að gera? Samkeppnin knýr menn til að gera allt sem bezt fyrir neytendur.

Ég skal ekki fara langt út í það, sem hv. þm. Mýr. talaði um þessa alþjóðastefnu, sem gerði það að verkum, að við yrðum að leggja þennan toll á. Ég vil benda honum á það, þó að ég hafi ekki kynnt mér það mál svo vel, að ég hafi tölur á reiðum höndum nú, að þegar við erum að bera okkur saman við Englendinga, þá verðum við að gæta þess, að þeir taka svo lítið af sínum ríkistekjum með tollum. Það er mjög víða svo, að tollar eru minna notaðir sem tekjustofn fyrir ríkissjóð heldur en hjá okkur, sem öflum mikils hluta af okkar ríkistekjum með þeim hætti. Aðrar þjóðir nota tollana miklu fremur sem einn lið í sinni verzlunarpólitík og mega ganga þar mjög langt til að komast til jafns við okkur.

Þá sagði hv. þm. Borgf., að þessi tollastefna væri svo búin að sigra í landinu, að Alþingi yrði að viðundri, ef það vildi þar annað en þjóðin. Hún hrópaði á tolla, og ef þingið vildi ekki samþ. þá, væri það komið út úr því lífræna sambandi við þjóðina. Bessi orð hv. þm. þarf ég að taka til nánari athugunar, því að í fljótu bragði lítur svo út, sem þetta sé rétt hjá hv. þm.

Það er satt, það er mikið hrópað á tolla bæði til sjávar og sveita. Iðnaðarmenn heimta tolla, bændur heimta tolla, og ýmsar aðrar stéttir heimta þá. En ef við athugum þetta nánar, þá sjáum við, að þetta er ekki svo almennt sem sýnist. Hver stétt heimtar tolla handa sér, en þeim kemur aldrei saman um, hvaða tolla eigi að leggja á.

Ég var á fundi hér í Rvík í vetur ásamt öðrum þm. Þar voru iðnaðarmenn, sem óskuðu eftir tollvernd. Þá stóð einn hv. þm. upp, sem er ekki svo fjarri þessu frv., og mælti eindregið með tollverndinni. rétt á eftir stendur upp bátasmiður og dregur þá eðlilegu ályktun af ræðu þm., að þá muni vera nauðsynlegt að fá tollvernd fyrir innflutningi á smíðuðum bátum. Þá stóð þessi sami hv. þm. upp aftur og syndi fram á, að það mætti alls ekki, því að það hefði reynzt svo í því plássi, þar sem hann þekkti til, að útlendir bátar væru svo prýðilega góðir og ódýrari en íslenzkir bátar, að ef ætti að bæta því á aðra örðugleika, sem bátaútgerðin ætti nú við að stríða, að tollur væri lagður á útlenda bata, svo að menn neyddust til að kaupa þá íslenzku, þá væri það algert rothögg á þennan atvinnuveg. Svona eru raddirnar. Hver stétt vill fá verndartoll fyrir sig, en má ekki heyra aðra tolla nefnda. Þessar kröfur um tolla eru kröfur einstakra manna, sem vilja aðeins láta vernda sinn atvinnuveg, en eru alls ekki sannfærðir um, að verndartollastefnan sé nú yfirleitt fyrir beztu. Eins er þetta hér á þingi, þeir hv. þm., sem bera þessar kröfur fram, eru þar ekki að tala fyrir munn almennings, heldur bera þær aðeins fram fyrir sig og þá stétt manna, sem þeir álíta sig fulltrúa fyrir. Enn sem komið er hefir meiri hl. þm. staðið á móti slíku, og vona ég, að svo verði enn, því að þá er Alþingi í samræmi við vilja meiri hl. þjóðarinnar.

Það er eins og ég sagði í minni fyrri ræðu, að það er hægt að auka innlenda framleiðslu með háum tolli. Við sjáum t. d., hvernig það hefir orðið með þann gífurlega háa toll, sem lagður hefir verið á vínið. Hann hefir orðið til þess að koma upp innlendri framleiðslu. þessir framleiðendur eiga þó við afarmikla örðugleika að stríða, eiga alltaf sektir og fangelsi yfir höfði sér. En tollurinn er svo þar, að þessi atvinnuvegur helzt við þrátt fyrir alla örðugleika, og þó er þessi íslenzka vara dýr að sögn, og sagt er, að hún sé ekki alltaf sem bezt. En tollurinn er svo þar, að í skjóli hans er hægt að framleiða Höskuld og annað slíkt, sem ég veit ekki, hvort hv. þm. Borgf. er svo fús á að vernda.

Þá gat hv. þm. um það, að mjólkurniðursuðuverksmiðjan í Borgarfirði væri komin á laggirnar og að hún væri fullkomlega samkeppnisfær. Þetta er gleðilegt, og ég veit, að allir, bæði þm. og aðrir, gleðjast yfir því, ef þessi innlenda framleiðsla getur gengið vel. En hvers vegna er varan samkeppnisfær hvað snertir verð? Það er af því, að það er ekki til neins að bjóða vöruna fyrir hærra verð en það, sem er á útlendu mjólkinni. En það er ekki víst, að mjólkin yrði svona ódýr, ef þar tollur væri á útlendu mjólkinni, því að þá þyrfti ekki að selja þá íslenzku eins ódýrt. En nú er það eftir að sýna sig, hvort þetta fyrirtæki ber sig, hvort það í raun og veru getur staðizt með því að selja mjólkina með þessu verði.

Það er ekkert nema rökvilla og vitleysa að segja, að menn vilji heldur kaupa útlenda voru en innlenda, a. m. k. þekki ég þess ekki dæmi. T. d. má minna á innlendu kaffibætisverksmiðjuna. Á mínu heimili hefir þessi innlendi kaffibætir alltaf verið keyptur, en svo var það einn dag, að ég fékk afargott kaffi, og það var þá reyndar Ludvigs Davids kaffibætir, sem látinn var í könnuna í þetta eina skipti. Samt var það ákveðið á „ráðherrafundi“ að halda áfram að styðja þá innlendu framleiðslu, og ég varð afarglaður, þegar ég las þá fréttagrein, að í ráði væri að flytja Ludvigs Davids verksmiðjuna hingað til lands og gera hana að íslenzku fyrirtæki.

Eins er það með kartöflurnar. Menn kaupa heldur íslenzku kartöflurnar, jafnvel þótt þær séu dýrari og mörgum þyki þær ekki betri. Það hefir líka sýnt sig hér, að ýmsar iðngreinar hafa unnið sig upp á þann heilbrigða hátt, t. d. smjörlíkisgerðirnar. nú flyzt ekkert erlent smjörlíki hingað til lands, en í samkeppninni, sem var á milli innlends og útlends smjörlíkis, urðu menn að streitast við að framleiða það sem allra bezt og hafa það sem ódýrast. Ég er viss um, að smjörlíkisgerðirnar hafa grætt á því, að þær voru ekki verndaðar með neinum tolli. Hefði það verið gert, þá væri íslenzka smjörlíkið nú hvorki eins gott eða ódýrt eins og það er. Það er ekki heldur nein von til þess, að menn leggi sína krafta meira fram en svo, að þeir hafi sitt mál fram.

Í þessu sambandi vil ég minnast á eitt dæmi, þó að það sé um óskylt efni. Fyrir nokkrum árum var reynt í Danmörku að fækka stúdentum með því að þyngja prófið, svo að fleiri af þeim fellu. En þá kom það í ljós, að þeir fellu ekki fleiri, þeir lögðu bara þeim mun meira á sig, og þess vegna stóðust þeir prófið, þó að það væri þyngt.

Svona er það með allt. Því meira sem menn verða að leggja á sig, því betri árangur fá þeir. Það er til skaða að hjálpa mönnum þannig, að þeir þurfi ekki að gera eins og þeir geta. Það verður til þess, að menn minnka. Allir vita, að þeir, sem búa í hinum svokölluðu góðu löndum, eru ekki eins þroskaðir og þeir, sem eiga heima í erfiðari löndunum. Þeir minnka, af því að þeir þurfa ekkert á sig að leggja. Eins er það með framleiðsluna. Að sama skapi og erfiðleikarnir og samkeppnin er minni þurfa framleiðendurnir minna að hugsa um að bæta sinn atvinnurekstur. Þeir þurfa ekki að gera eins og þeir geta, og það er til þess, að allt verður verra. Það er eins með efnagerðina, með hreinlætisvörur og ýmislegt annað, sem framleitt er hér. Þessi iðnaðarfyrirtæki hafa átt í harðri samkeppni, og það hefir orðið til þess, að menn hafa fengið verulega góða voru, sem hægt er að segja, að sé raunverulega samkeppnisfær.

Ég sé líka, að eggjaframleiðsla er að stóraukast, og litur út fyrir, að við getum orðið sjálfum okkur nógir með egg án þess að nein eggjatollvernd komi. Get ég tekið undir það, sem hv. þm. Borgf. sagði, að innlend egg, sem við vitum, að eru nýorpin, eru kaupandi fyrir meira verð heldur en útlend egg, sem eru nýorpin þannig, að það stendur bara í búðarglugganum, að þau séu nýorpin, en reynast svo kannske meira og minna skemmd.

Ég sé, að fundartími er í þann veginn að enda, og vil ég því ekki halda ræðu minni áfram, þó að margt mætti fleira um. Þetta segja. Við, sem erum hér í minni hl., höfum ekki gefið út neitt nál., og því hefi ég ekki rétt til að tala í þriðja skiptið. Mun ég þó láta við þetta sitja og láta máli mínu lokið.