04.05.1932
Neðri deild: 67. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 449 í C-deild Alþingistíðinda. (3347)

157. mál, verðtollur

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég veit ekki, hvað hv. þm. Mýr. á við með því, að máalþófi sé beitt hér. Ef nokkrir hafa gert það eru það hv. flm. þessa frv.

Ég vildi víkja að nokkrum atriðum í ræðum hv. flm., hv. þm. Mýr. og hv. þm. Borgf. Hv. þm. Borgf. sagði, að niðursuðuverksmiðjan í Borgarnesi framleiddi jafngóða mjólk og beztu erlendu mjólk og seldi með samkeppnishæfu verði. Ég hygg, að þetta sé rétt. En ef svo er, hvaða ástæða er þá til að fara að leggja 30% verðtoll á erlenda mjólk í viðbót við vörutoll, flutningsgjöld og hafnargjöld, sem á þá mjólk hlaðast? Ekki skil ég, að Borgarnesmjólkin batni við það! Afleiðingin hlyti að verða sú, að innlenda mjólkin hækkaði stórum í verði. Annars væri tilgangslaust að vera að bera þessa tollhækkun fram. Tilgangur frv. er alls ekki sá, að afla tekna handa ríkissjóði, heldur fyrir þá seljendur, sem eiga grænmetisekrur og eggjabú. Fyrir bændur almennt hefir þessi tollur alls enga þýðingu, því að bændur yfirleitt eiga ekki þessi jarðnesku gæði, sem ég var að minnast á. Hv. þm. Mýr. sagði, að í þessu frv. fælust þær einu atvinnubætur, sem vit væri í, og væri munur á sér eða sósíalistum, sem heimtuðu atvinnubætur í tíma og ótíma, og atvinnuleysisstyrki, ef þær fengjust ekki. Þetta er auðvitað ekki svaravert. Sannleikurinn er sá, að sárfáir bændur hafa hagnað af þessum ráðstöfunum, og bann hagnað verða neytendur að greiða með stórkostlegri álagningu.

Hv. þm. Mýr. sagði, að niðursuðuverksmiðjan hefði ekki sótt um styrk, heldur aðeins að fá að vera ein um sölu niðursoðinnar mjólkur her. Það er nú svo sem ekki til mikils mælzt. Í frv. er ekkert verð ákveðið á mjólkinni, og er það þó hið minnsta, sem flm. hefðu sóma síns vegna átt að taka fram í frv., að verðlag yrði ekki hækkað. Hinn aukni markaður hefði átt að vera ærin hlunnindi fyrir verksmiðjuna. En við þessu er ekki að búast, þar sem tilgangur frv. er sá einn, að skapa verðhækkunarmöguleika.

Hv. þm. Mýr. talaði mikið um óstandið á verzluninni hér, og var svo að heyra, að það væri einkum fólgið í því, að kaupmenn flyttu stundum inn skemmd egg og yrðu að fleygja skurninu með fúlu innihaldi. Ekki sé ég, hvernig hv. þm. ætlar að fara að réttlæta málstað sinn með þessu. Kaupmaðurinn tapar á þessu, en egg verða flutt inn eftir sem áður. Annars eru flest egg stimpluð og egg til bókunar og suðu aðgreind, svo að ég hygg, að hv. flm. hafi ofmælt um þessar eggjaskemmdir. Og ekki er ólíklegt, að egg gæti eins skemmzt, þótt tollur sé lagður á þau. Og eigi alveg að hætta að flytja egg inn, er hætt við, að egg, sem eru flutt t. d. frá Grindavík til Austfjarða, geti orðið fúl á leiðinni.

Hv. flm. er kunnugt um að ýmsar hömlur eru nú á innflutningi þessara vara. Í fyrsta lagi verður að fá leyfi innflutningsnefndar, sem munu vera skömmtuð mjög úr hnefa, og þar við bætast hömlurnar á gjaldeyrisverzluninni. Það mun satt vera, að mestar hömlur sem lagðar á innflutning þeirra vara, sem hægt er að framleiða í landinu. Því minni ástæða er til, að frv. sem þetta komi fram.

Hv. þm. Mýr. vildi leggja að jöfnu baráttu sína Og hv. þm. Borgf. fyrir banni á innflutningi á nauðsynjavörum almennings við mótspyrnu okkar Alþýðuflokksmanna gegn innflutningi erlends verkafólks. Vitanlega þarf ekki að eyða orðum að þessum samanburði. En hann er fróðlegur að því leyti, að hann sýnir, hvernig þessir menn lita á verkafólkið. Þeir skoða það sem markaðsvöru, eins og t. d. kartöflur, en ekki sem mannlegar lifandi verur. Þessi andi kemur svo oft fram, að mér finnst rétt að benda á þetta.

Flm. vita vel, að tollhækkun á þeim vörum, sem ekki er framleitt nóg af í landinu, hlýtur óhjákvæmilega að leiða af sér verðhækkun sökum vöntunar á vörunni. Og í ýmsum hlutum landsins eru samgöngur ekki betri en það, að ódýrara er að flytja þangað vörur frá útlöndum en með strandferðaskipunum, auk þess sem þær ferðir eru beinni og greiðari.

Ég skal ekki fara að ræða um það almennt, hvaða fylgi verndartollastefnan hefir úti í löndum. Það er rétt, að í ýmsum löndum hefir upp á siðkastið mikið verið gert að því að leggja verðtolla á vörur, sem talið er auðvelt að framleiða í landinu sjálfu. En hitt orkar ekki tvímælis, að í hugum langflestra, og þar á meðal margra þeirra, sem í bili telja sig neydda til þess að fylgja þessari verndartollastefnu, er sú skoðun mjög ákveðin, að verndartollar yfirleitt séu eitt það mesta bol, sem þjóðirnar eiga nú við að búa. (PO: Getum við afnumið það?). Nei. En við erum engu bættari, þó að við tök um upp verndartolla að þarflausu. Öðrum þjóðum dettur yfirleitt ekki í hug að vernda aðrar framleiðslugreinar með verndartollum en þær, sem mjög verulega þýðingu hafa fyrir atvinnulíf þeirra. En framleiðsla þessara vörutegunda, sem hér er um að ræða, hefir svo saralitla þýðingu í atvinnulífi okkar Íslendinga, að jafnvel í römmustu verndartollalöndum mundi vera talin fjarstæða að tolla þær undir sömu kringumstæðum.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa um þetta fleiri orð að sinni. Ég mun greiða atkv. með þeim brtt., sem draga úr frv., en jafnvel þó þær verði allar samþ., mun ég greiða atkv. móti frv. sjálfu.