25.04.1932
Neðri deild: 59. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í C-deild Alþingistíðinda. (3367)

226. mál, jarðræktarlög

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Hv. þm. Mýr. vildi draga þá ályktun af mínum orðum, að þar sem ég teldi ekkert óeðlilegt við það, þótt Búnaðarfél. Íslands, m. a. af sögulegum rétti, færi með þessi mál, þá ætti ég að vera með því að auka stöðugt óskorað vald félagsins yfir þessum málum. Þetta þarf alls ekki að vera. Það getur vel þótt heppilegt að gefa ákveðinni stofnun eða starfsgrein svo og svo mikið sjálfstæði, en af því leiðir alls ekki, að sjálfsagt sé að gera þær fullkomlega sjálfstæðar. Við skulum taka t. d. skólamál. Það getur þótt heppilegt að gefa bæði einstökum skólum og jafnvel öllu skólakerfi einhvers lands svo og svo mikið sjálfstæði, án þess þó að mönnum detti í hug að skapi með því nokkurt ríki í ríkinu. Það mætti skipa yfirskólanefnd, sem sæi um öll skólamál í landinu, og gefa þeirri n. talsvert víðtækt vald, þótt úrskurðarvaldið lægi hjá sjálfu ríkisvaldinu, sem féð leggur fram og vill því hafa síðasta orðið. Eins og nú er má vel vera, að einmitt hafi hitzt á hið rétta meðalhof. Ég er ekkert á móti gildandi fyrirkomulagi og mér finnst það heldur réttara að lofa þróuninni í þessum málum að ráða nokkuð miklu, en þar fyrir er alls ekki hægt að álykta, að maður vilji með þessu stofna til ennþá meira sjálfræðis.

Hv. þm. er ekkert hræddur við þá árekstra, sem geta orðið milli Alþ. og Búnaðarfél., svo lengi sem stjórn Bfél. fer viturlega að. En árekstrarnir verða nú einmitt út af því, hvað viturlegt sé. Búnaðarfélagsstjórnin, sem kosin er af búnaðarþinginu, ber því, ef svo mætti segja, ábyrgð fyrir búnaðarþinginu einu, eftir því sem gert er ráð fyrir í frv. En nú gæti svo farið, að Alþ. sýndist eitt og búnaðarþinginu annað. Á þá Búnaðarfélagsstj. að bera ábyrgð fyrir búnaðarþinginu einu eða búnaðarþ. og Alþ., og þá í hvaða hlutföllum fyrir þessa tvo aðila? Mér virðist hv. þm. Mýr. álíta yfirleitt, að árekstrar geti orðið háskalegir, ef stjórnin ber ekki ábyrgð fyrir búnaðarþinginu, þótt hann játi í öðru orðinu, að þessir árekstrar hafi ekki orðið hættulegir, og það er gott að hafa einhverja reynslu í heim efnum. Ef árekstur verður milli Búnaðarfélagsstj. og búnaðarþingsins, sé ég ekki ástæðu til þess, að Bfélstj., sem nú er skipuð að nokkru leyti af Alþ., þurfi að vera bundin við þessa ráðgefandi samkundu — búnaðarþingið. A. m. k. skoða ég það aðeins sem ráðgefandi. Það er til að efla áhugann, koma með nýjar hugmyndir, en á ekki að verða ríki í ríkinu. Búnaðarþingið á alls ekki að geta lagt þannig fyrir stj., að hún verði að fara eftir því. En hvernig væri það, ef þessum málum væri skipað hjá okkur eins og þeim er yfirleitt skipað annarsstaðar í heiminum, að þetta sé einungis stjórnarráðsdeild? Og hvernig fer yfirleitt um öll önnur mál og allar starfsgreinir, sem ekki hafa nein ráðgefandi þing, t. d. kirkjumál? Kirkjuþing eru kvödd saman, en þau eru einungis ráðgefandi og það dettur engum í hug, að þau eigi að hafa slík völd til að ráðstafa sínum málum.

Í þessu efni er auðvitað aðalatriðið að hafa eitthvert fé til að starfa fyrir. Í sambandi við það, að þeir, sem þarna hafa mestan áhuga, geta látið í ljós vilja sinn og haft eðlileg áhrif á gang mála, er þó það að segja, að þeir, sem leggja fram féð, verða að hafa síðasta orðið, og er bezt, að það geti gerzt á friðsaman hátt, en ekki eftir stórkostlegan árekstur. Mér er auðvitað kunnugt um það, sem hv. þm. talaði um, að mjög mikið af því fé, sem búnaðarþingið hefir til umráða, er bundið fé. En ég sé ekki heldur þótt aukið sé sjálfstæði félagsins, að það komi þessu máli neitt við. Ekki ræður það frekar með hinni nýju stjórn sinni, sem búnaðarþingið eitt kýs, yfir því fé, sem algerlega er bundið að lögum. Það gagnar því ekkert aukið sjálfstæði. Það er bara ráðstafað fé, sem félagið á að útbýta eftir settum reglum.