15.03.1932
Neðri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Einar Arnórsson:

Ég á brtt. á þskj. 151, við 4. gr. frv. Ég tók eftir því hjá hv. frsm. meiri hl., að n. er hlynnt till. Hún felur líka sumpart í sér aðeins leiðréttingu á 1. gr. c-lið, því vitanlega er það svo um þann skatt, sem þar um ræðir, að það er spursmál, hvort hann á ekki að lækka vegna þess, að bílar séu ekki notaðir. Það er svo um marga bíla, að þeir eru ekki notaðir á vissum tíma árs, og þessi till. fer fram á, að „ef einkennismerki bifreiðar er afhent lögreglustjóra í skrásetningarumdæmi hennar til geymslu um tíma, þó aldrei skemur en 3 mánuði“, þá skuli ekki krefja þann skatt, sem nefndur er í 1. gr. c-lið þetta er vitanlega sanngjarnt, því að slíkur farkostur getur vitanlega ekki spillt vegunum. Þegar hann er ónotaður. Sumum finnst ef til vill, — og það kann að vera —, að tíminn, 3 mánuðir, sé of langur. En það mundi valda svo miklum töfum hjá lögreglustjórum að vera alltaf að taka merkin og afhenda, að ég hefi ekki viljað hafa tímann styttri, enda krefur það aukins eftirlits, ef miðað er við styttri tíma.

Ég geri ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. sé samþykkur þessari till. minni, svo hún ætti ekki að mæta neinni mótspyrnu hér í hv. d., enda er hún sanngjörn í alla stað. Ég vona því, að d. samþ. hana.