11.03.1932
Neðri deild: 26. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 467 í C-deild Alþingistíðinda. (3388)

92. mál, kartöflukjallarar og markaðsskálar

Pétur Ottesen:

Það var nú raunar hv. þm. Mýr., sem átti að reifa þetta mál f. h. n. En hann er nú veikur og þar sem landbn. óskar mjög að þetta mál geti gengið áfram tafarlaust, vildi ég fara nokkrum orðum um þetta frv. Eins og menn sjá á þessu frv., þá er það nálega í sama búningi og gerð eins og það var samþ. hér í þessari deild á sumarþinginu. Aðalbreyt. í frv. nú er, að gert er ráð fyrir í 1. gr., að kjallarinn, sem byggja á í Rvík, verði nokkru minni en gert var ráð fyrir í frv. því, sem lá fyrir sumarþinginu. Þá var gert ráð fyrir, að hann ætti að rútna allt að 10 þús. tunnur, en nú er miðað við 6 þús. tunnur. Þetta dregur vitanlega nokkuð úr þeim kostnaði, sem gert er ráð fyrir, að af kjallarabyggingunni leiði fyrir ríkissjóð.

Önnur aðalbreyt. frá því, sem áður var, er að sett eru inn í frv. bráðabirgðaákvæði um það, að stj. taki kjallara á leigu, þar til betur lætur í ári, til þessarar geymslu og geri á honum nauðsynlegar breytingar. Og það, sem n. og þeir, sem að þessu máli standa, hafa í huga, er, að fengið yrði húsrúm í kjallaranum undir þjóðleikhúsinu, sem nú er verið að reisa hér í bænum. Mér hefir verið sagt af mönnum, sem hafa athugað þennan kjallara, að með tiltölulega litlum kostnaði verði hægt að gera hann svo úr garði, að þar geti orðið örugg geymsla, og hvað rúmið snertir, þá er það yfirfljótanlega nóg til að uppfylla þá þörf, sem gera má ráð fyrir, að verði á næstunni í þessu efni. Ég býst við, að stj. geti fengið þetta húsrúm með góðum skilmálum og að samkomulag við þá, sem ráða yfir þjóðleikhúsbyggingunni, muni auðfengið. Það, sem þarf að gera, er aðallega í því fólgið að útbúa frekari einangrun til varnar frosti í kjallaranum. Auk þess er nauðsynlegt að fá þar rafmagnsloftræstingu, svo sem gert er alstaðar erlendis, þar sem um geymslu á jarðarávöxtum yfir lengri tíma er að ræða. Í grg. og líka í umr. um þetta mál á sumarþinginu var talað töluvert mikið um, hvaða þýðingu það hefði að koma upp slíkum kjallara, svo mér virðist ekki ástæða til að fara að rifja það upp fyrir hv. dm. Ég vildi bæta því við í sambandi við þetta frv., sem einungis miðar að því að koma upp kartöflugeymslu í Rvík, að landbn. hefir hugsað sér, að það þyrfti að sjá fyrir þörfum manna í þessu efni í öðrum landshlutum. Hún hefir hugsað sér að bera fram þá breyt. á jarðræktarlögunum, að heimilt sé að veita nokkurn styrk úr ríkissjóði til slíkra bygginga á nokkrum öðrum stöðum á landinu. Þetta verður nánar skilgreint þegar það frv. kemur fyrir hv. d.

Ég held, að ekki þurfi að fara lengra út í þetta mál, en vænti þess, að d. taki vel í þetta frv. eins og á sumarþinginu, svo það geti orðið afgr. sem lög frá þessu þingi.