15.03.1932
Neðri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 812 í B-deild Alþingistíðinda. (340)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Haraldur Guðmundsson:

Ég býst við, að þetta þakklæti til d. frá hæstv. fjmrh. nái ekki til mín. (Fjmrh.: Alveg rétt). A. m. k. hefi ég ekkert unnið til þess. (Fjmrh.: Alveg rétt). Fyrst vil ég víkja að því, sem nánast mætti nefna spaugsyrði hæstv. fjmrh. Hæstv. ráðh. talaði margsinnis um það, að útlendingar létu sér nægja að „gefa járnbrautina“, svo að nóg væri, ef Íslendingar „gæfu vegina“. Hann talaði um þetta í slíkum tón, að því var líkast, sem hann eða Alþingi væri að gefa landsfólkinu gjafir, þegar nýir vegir væru lagðir. Er þetta næsta undarleg hugsun, því að ég veit ekki betur en að landsmenn hafi orðið að borga vegi sína fullu verði. Vegagerðir hafa alltaf verið kostaðar af almannafé, sem tekið hefir verið með tollum og sköttum á landsmenn, oftast nær ranglátum, þannig, að þeir hafa verið látnir borga mest, sem minnst geta af mörkum látið. Og ef frv. hæstv. ráðh. verður samþ., þá er þar enn á ný lagður á ranglátur skattur. Það getur verið nógu áheyrilegt að gaspra um gjafir handa landsfólkinu, en það kemur ekki þessu máli við, heldur það eitt, hvort hyggilegt sé eða rétt að taka fé til vegagerða á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég lít á þessa leið hæstv. ráðh sem rangláta.

Hæstv. ráðh. segir, að skattur þessi muni ekki verða til þess að gera bílflutninga dýrari. Furðar mig á þessari staðhæfingu. Veit hann þó vel, að árlega hljóta að leggjast á bílflutninga innanlands um 300000–400000 krónur, ef frv. nær fram að ganga. Heldur hann, að bílaeigendur séu svo örlátir eða efnaðir, að þeir þoli slíkan skatt eða taki hann á sig án þess að breyta flutningagjöldum? Nei, þetta leggst á flutningagjöldin, og mest mun hækka flutningur á þungavöru og nauðsynjum almennings þetta liggur í augum uppi. Þá segir hæstv. ráðh., að vegir muni batna svo mjög, að það vegi upp skattinn í minni benzíneyðslu bifreiða o. s. frv. En nú er frv. einmitt flutt til þess að létta af ríkissjóði framlagi til vega. Væri e. t. v. glóra af skynsemi í þessu, ef skattinum ætti að bæta við þá millj. eða því sem næst, sem nú er varið til vegaviðgerða á ári. En hæstv. ráðh. vill fá skattinn til þess að minnka þennan lið. Heldur hann, að vegir verði greiðari yfirferðar, þó að það fé, sem notað er til viðgerðanna, heiti bifreiðaskattur heldur en eitthvað annað?

Hæstv. ráðh. sagði, að víst væri, að það myndi seinka fyrir Fjarðarheiðarvegi, sem mér er áhugamál að lagður verði, ef ég legðist á móti þessu frv. Er mér þetta torskiljanlegt. Ég sé ekki, að til þess sé ætlazt, að einn eyrir eigi að fara til Fjarðarheiðarvegar af bifreiðaskatti, enda yrði fyrst að leggja hann, áður en farið væri að viðhalda honum, því að bifreiðaskattur þessi á að ganga allur til viðhalds vega.

Ef gengið er út frá þeirri hugsun hæstv. ráðh., að skattur þessi borgi sig fyrir bifreiðaeigendur, þannig að vegir batni, þá er það firra að undanskilja ekki innanbæjabifreiðar. En þær eiga líka að borga sinn skatt. Heldur hann, að benzíneyðsla bifreiða, sem flytja fisk frá höfninni til verkunarstöðva hér í Reykjavík t. d., minnki við það, að vegir séu lagfærðir yfir Holtavörðuheiði? Auðvitað ættu þær bifreiðar að vera undanþegnar skattinum, sem ekki nota þessa vegi. En ég veit vel, að það vakir ekki fyrir honum að bæta vegina, heldur það eitt, að minnka útgjöld ríkissjóðs, og þetta telur hann heppilega aðferð sem kreppuráðstöfun og fjármalapólitík. Hæstv. ráðh. sagði, að ráðið við kreppunni væri það, að vörur hækkuðu í verði, en framleiðslukostnaður minnkaði þetta frv. er því sennilega borið fram til þess að aflétta kreppunni. Skil ég raunar ekki, hvernig það ætti að leiða út úr kreppunni, að mjólk og aðrar nauðsynjar hækkuðu í verði fyrir þennan skatt, því að ég hygg, að hann muni vel skilja, að þannig muni fara, enda þótt hann haldi því fram í hinu orðinu, að skatturinn eigi ekki að hafa áhrif á vöruverð.

Hæstv. ráðh. talar mikið um Stauning í sambandi við mig, og þykir mér alltaf vænt um, þegar sagt er frá gerðum flokksmanna minna erlendis. Í Danmörku kemur þessi skattur öðruvísi niður, vegna þess, hvernig vegum er háttað þar, en það kemur ekki við okkur, hvernig málum er ráðið í Danmörku.

Hæstv. ráðh. minntist líka á það, að hann vissi, að ekki væri langt síðan menn voru látnir greiða vegagjöld og brúa. Virtist hann ekki fjarri því, að slíka venju mætti aftur taka upp. Slíkt fyrirkomulag, sem tilheyrir löngu liðnum tímum, hefir þá e. t. v. haft nokkurn rétt á sér, en nú er allt öðru máli að gegna. Þó væri það sjálfsagt ekki miklu ranglátara en það, sem farið er fram á í þessu frv., því að þá ættu þó ekki aðrir að greiða gjöldin en þeir, sem um veginn fara, en samkv. frv. verða líka innanbæjarbílar að greiða mörg hundruð króna á ári til viðhalds vegum, sem þeir fara aldrei um. Við erum báðir sammála um það, að brúarpeningana beri ekki að taka upp aftur, en ég sé ekki, að þetta ráð sé nokkuð betra, þó að það sé raunar skiljanlegt út frá því sjónarmiði hæstv. ráðh., að ráðið við kreppunni sé það, að hækka vöruverð, því að ef frv. yrði að lögum, yrði það áreiðanlega til þess að hækka verð bæði innlendra og erlendra vara.