01.04.1932
Efri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í C-deild Alþingistíðinda. (3406)

92. mál, kartöflukjallarar og markaðsskálar

Jón Baldvinsson:

Þegar þetta mál var hér til meðferðar í fyrra í þessari hv. þd., þá hneykslaði ég suma hv. þm. með því að stinga upp á því, að leikhúskjallarinn nýi yrði notaður í þessu skyni til geymslu fyrir garðávexti. Ég er ekki frá því, að þetta væri hentug úrlausn á þessu máli, ef hægt væri að fá samkomulag um hana. Að öðru leyti vil ég taka undir með hv. þm. Snæf., að mér þykir undarlegt, að þessi heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði skuli vera borin hér fram nú, þegar hæstv. fjmrh. stendur daglega með sveittan skallann í báðum deildum Alþingis til þess að sanna þingheimi, að ríkissjóður þurfi að fá 11/2 millj. kr. tekjuauka til þess að standast brýnustu útgjöld. Hér er í þessu frv. farið fram á talsverða upphæð til útgjalda: 40 þús. kr. í einu lagi, og ómögulegt er að segja fyrir fram nema það geti orðið meira og að þessi fyrirhugaða bygging verði dýrari en ráðgert er, því þó að verkfræðingum eða húsameisturum verði falið að gera um það áætlanir og teikningar, þá gæti svo farið, ef að vanda lætur, að síðasti kostnaðarreikningurinn við bygginguna stemmi ekki upp á eyri við kostnaðaráætlunina. En hinsvegar verður ekki hægt fyrir stj. að láta stöðva bygginguna í miðju kafi, þegar þessi áætlunarupphæð er búin. Það gæti valdið meiri skaða heldur en að bæta við t. d. 20 þús. kr. og halda verkinu áfram, þannig að náð verði þeim tilgangi, sem lögin ætlast til. Stj. yrði nauðug eða viljug að verja því fé til byggingarinnar, sem þarf til þess að hún komi að tilætluðum notum.

Ég veit ekki, hvort þeir menn, sem að þessu frv. standa, hafa gert sér ljóst, hvort viðunanlegt húsnæði mundi vera fáanlegt hér í Reykjavík til þessara afnota og með hvaða kjörum. En eins og nú er ástatt, þá held ég, að flestallir vöruskalar kaupmanna hér í bænum hljóti að vera meira og minna tómir. Ég skal jata, að ég hefi ekki athugað, hvort hentugt húsnæði væri hér fáanlegt, en ég vil spyrja hv. landbn., hvort hún hefir ekki kynnt sér það. Það skiptir miklu í þessu máli, hvort reist verður nýtt hús fyrir 40 þús. kr. eða meira eða að leigt verður húsnæði og lagfært lítilsháttar, sem gæti komið að fullum notum.

Það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að þetta gæti orðið að nokkru gagni fyrir innlenda framleiðslu og aukið hana, því að erfiðleikar á sölu garðávaxta um leið og uppskerunni er lokið hindra það, að einstakir menn stækki garða sína og taki ný lönd til garðræktar. Ég geng því inn á það, að þetta mundi auka framleiðslu á garðavöxtum, ef góð geymsla fengist á þeim þar, sem markaðurinn er mestur. En hitt gæti líka komið til mála, að reisa geymsluskala fyrir garðávexti á fleiri stöðum en hér í Reykjavík, og væri ef til vill meiri nauðsyn á því annarsstaðar, því að samgöngur eru greiðastar hér við Reykjavík.

Ég held, að þó að tilgangurinn með þessu frv. sé góður, þá hafi málið ekki verið rannsakað sem skyldi, sérstaklega að því er snertir húsnæðið. — Einni fyrirspurn vildi ég beina til hv. frsm., hvort nefndin ætlast til, að í frv. felist tvennskonar heimild til stj., fyrst og fremst heimild til þess að láta reisa byggingu og í öðru lagi heimild til þess að leigja húsnæði til vörugeymslu. Ég get vel hugsað mér, að það sé gott, að hið opinbera hafi forgöngu um þetta mál, af því að framleiðendur garðávaxta eru svo dreifðir og óvíst, að þeim takist að hafa samtök til þessara framkvæmda. Og þó að þessi forganga hafi einhvern kostnað í fór með sér til að byrja með, þá ætti hann ekki að vera þungbær fyrir ríkissjóð, þó að framleiðendum garðávaxta sé máske ekki kleift að leggja hann fram.

Með frv. þessu er farið fram á allstóra upphæð til útgjalda, þegar miðað er við þá kveinstafi, sem daglega heyrast um fjárhag ríkisins úr stjórnarflokknum. Ég sé mér því ekki fært að greiða atkv. með því heimildarákvæði frv. En hvort ég sit hjá eða ekki, skal ég ekkert um segja að svo stöddu.