01.04.1932
Efri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 478 í C-deild Alþingistíðinda. (3408)

92. mál, kartöflukjallarar og markaðsskálar

Einar Árnason:

ég tel vafasamt, að ég geti fylgt þessu frv., m. a. af sömu ástæðu og hv. þm. Snæf. benti á, sem sé fjárhagsatriði málsins. Ég sé ekki, að ríkissjóður hafi ráð á að leggja fram þetta fé, sem frv. heimilar til þessara framkvæmda. Og í öðru lagi virðist það vera alveg óákveðið, hvernig þessi bygging á að vera og hvernig ríkisstj. er ætlað haga afnotum byggingarinnar. Það stendur í 2. gr. frv., að þegar kjallarinn er fullgerður, skuli hann leigður íslenzkum kartöfluframleiðendum og þeim, er verzla með íslenzkar kartöflur. Ég held, að þetta geti orðið nokkuð umfangsmikið fyrir stj., ef hún á að leigja þetta húsrúm hinum og öðrum, sem það það geti verið gott, ef ástæður leyfa, að greiða fyrir því, að kartöfluframleiðendur geti komið sölunni á framleiðslu sinni í betra lag en nú er, en mér virðist, að þetta eigi að vera utan við verksvið ríkisstj., þannig að hún þurfi ekki að sjá um þessar framkvæmdir eða að ríkissjóði sé gert að leggja fram mikið fé til að byggja yfir kartöflurnar. Hinsvegar lít ég svo á, að ef stj. hefði ráð á geymsluhúsi í Reykjavík til þess að greiða fyrir því, sem ætlazt er til í frv., þá gæti það vel komið til mála, þó án sérstaks tilkostnaðar fyrir ríkissjóð. Hefi ég þar sérstaklega í huga sérstaka byggingu, sem nýbúið er að reisa hér í Rvík fyrir opinbert fé og ekki er enn farið að nota, vegna þess að hún er ekki fullgerð, og verður það sennilega ekki næstu arin. Þess vegna vil ég leyfa mér að bera fram svofellda till. til rökst. dagskrár:

Í því trausti, að ríkisstjórnin aðstoði félagsskap innlendra kartöfluframleiðenda, ef með þarf, um húsrúm í Reykjavík til geymslu og sölu á kartöflum, ríkissjóði að kostnaðarlausu, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.