01.04.1932
Efri deild: 40. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í C-deild Alþingistíðinda. (3411)

92. mál, kartöflukjallarar og markaðsskálar

Halldór Steinsson:

Hv. 3. landsk. sagði, að sér hefði komið mjög á óvart þau andmæli, sem hér hefðu komið fram gegn þessu frv. En ég held, að hv. þm. hefði ekki þurft að koma þau svo mjög á óvart, því frv. var hér til umr. á síðasta þingi, og ég man ekki til, að það fengi svo góðar undirtektir þá í þessari hv. d., að hv. þm. hafi haft ástæðu til að ætla, að það gengi andmælalaust gegnum hana nú.

Þá fór hv. þm. út í dálitlar öfgar, þar sem hann sagði, að þeir, sem legðust á móti þessu frv., væru á móti því að spara á aðra millj. kr. fyrir landsmenn, og að þær 40 þús., sem gert er ráð fyrir að kosta til, væru smáræði samanborið við hann mikla gjaldeyrissparnað, sem af þessu leiddi. Þetta finnst mér ganga nokkuð langt hjá hv. þm., því það er vitanlegt, að þó þessi kartöflukjallari væri byggður hér í Reykjavík, þá yrðu það aðeins nærsveitirnar, sem þess nytu. Það yrðu fyrst og fremst Akranes, og svo e. t. v. Árnessýsla. Allur þorri landsmanna mundi fara á mis við þessi gæði, vegna þess að svo mikill kostnaður yrði við að flytja kartöflur frá þeim í þennan markaðsskála, að þær mundu ekki standast samkeppni við útlendar kartöflur hér.

Hv. 2. þm. Árn. var mjög skáldlegur í upphafi ræðu sinnar og sagði, að það blési kalt af Snæfellsjökli gegn þessu máli. það er gleðilegt, að sá kuldagjóstur hefir þó ekki orðið til þess að drepa út allan kartöflugróður í huga hv. þm. Hann sagði, að hér væri ekki farið fram á nein útgjöld fyrir þjóðina. Ég veit ekki hvernig hv. þm. getur sagt, að 40 þús. kr. fjárveiting sé engin útgjöld fyrir þjóðina; ekki verða þær borgaðar af öðrum en þjóðinni.