15.03.1932
Neðri deild: 29. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (342)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Út af orðum þeim, sem síðast féllu, vil ég aðeins geta þess, að hv. 4. þm. Reykv. á því meira þakklæti skilið úr því, sem nú er komið. (MG: Ég skal skila því). Þá vil ég víkja að hv. þm. Seyðf., sem ekkert þakklæti hefir fengið ennþá, og fær það heldur ekki að svo stöddu. Hann sagði rétt um það, að ég hefði persónulega enga vegi gefið, og mun líkt á komið með okkur að þessu leyti. En hitt get ég ekki fallizt á, að svo megi ekki að orði komast, að ríkið gefi vegina, þegar það leggur fram fé vaxtalaust. Ég held, að hv. þm. þykist vera að gefa mér ráð, og er honum þó borgað dagkaup fyrir það að láta frá sér fara slík ráð. Þegar ég notaði orðið að gefa, þá var það í þeim skilningi, að ríkissjóður heimtaði ekki vexti af fé því, sem hann leggur fram. Hitt þykir mér vænt um, að hv. þm. hefir uppgötvað, að landsfólkið borgar þetta sjálft. Hér er samhengi milli orsakar og afleiðingar, vegaslits og skatts á farartækjum. Slíkt samhengi verður alstaðar að vera milli framlags fólksins og þess, sem framlögin fara til, og er leitazt við bað um allan heim að ná þessu samhengi. Er það föst regla alstaðar nema hér, að ef ný útgjöld reynast óhjákvæmileg, þá eru lagðir á nýir skattar, sem standa í greinilegu sambandi við útgjöldin. Er hér því ekki um neitt nýtt fyrirbrigði að ræða.

Um flutningabíla er það rétt, að ekki er unnt að tína þá, sem aldrei fara um tiltekinn veg, frá hinum, sem veginn nota. Þessi farartæki eru yfirleitt eins og fuglinn fljúgandi og fara víða, og verður að búast við því, að þau komi á flesta vegi. Satt er það líka, að slíkur skattur sem þessi væri að vissu leyti lagður á í þeim tilgangi að létta af ríkissjóði. Ef ekki er lagður á slíkur skattur, þá er heldur ekki hægt að veita það fé til vegamála, sem hingað til hefir verið lagt fram.

Enda þótt ekki sé það lagt til í frv., að gerður verði vegur yfir Fjarðarheiði, þá ætti það að vera auðskilið, að þessi skattur geri auðveldara um fjárframlög til nýrra vega. Ef það tekst að afla nægilegs fjár til viðhalds vegunum, er heldur von um, að eitthvað verði afgangs til nýrra vega, og var það þetta, sem ég átti við, en ekki hitt, að skattur þessi ætti að fara beint til Fjarðarheiðarvegar.

Um Stauning þarf ég fátt að tala, en hv. þm. var auðsjáanlega í vanda staddur með sinn ágæta flokksbróður.

Þá get ég ekki játað, að ég hafi sagt, að bílaskattur þessi myndi beinlínis gera flutninga ódýrari. Ég sagði, að bílarnir myndu njóta hans í bættum vegum. Get ég bætt því við, að þess eru dæmi frá öðrum löndum, að benzínverð er jafnhátt, þótt benzínskattur sé mishár. Það er svo um benzínið, að fáar vörur eru meir einokaðar en það, og er líklega engin sú vara til, sem „trustar“ hafa meiri einokun á. „Trustar“ eru afarsterkt vald. Eru til dæmi þess, að olíu- og benzínfélög hafa tekið á sig hækkaðan benzínskatt til þess að jafna benzínverðið. Nefni ég þetta til dæmis fyrir þá hv. þm., sem kynnu að hafa áhrif hér á.

Að skattur þessi ætti að lækna kreppuna, er ekki annað en gamanyrði. Þó er honum ætlað að laga að nokkru kreppu ríkissjóðs, en hitt hefi ég gert mér litlar vonir um, að hann hefði nokkur áhrif á heimskreppuna. Þrátt fyrir hækkaðan benzínskatt í öllum löndum, hefir henni ekki létt af. Er það barnalegt að hugsa sér, að sú verðhækkun, sem af því stafar, að ríkið taki til sín nokkurn hluta af andvirði varanna með sköttum, eigi eitthvað skylt við þá verðhækkun, sem kemur smátt og smátt á allar vörur og er eina ráðið við kreppunni. Við getum ekki selt vörur okkar hærra verði, nema kaupgeta verði meiri, en kaupendurnir geta ekki keypt, nema þeir fái hærra verð fyrir sínar vörur. Kreppan stafar af verðlækkun, og verður því vöruverð yfirleitt að hækka, til þess að ráðin verði bót á henni. Er ég sannfærður um, að henni væri af létt, ef vöruverð kæmist í það horf, sem það var fyrir 1929.