11.05.1932
Efri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 488 í C-deild Alþingistíðinda. (3424)

57. mál, land Garðakirkju

Frsm. (Einar Árnason):

Allshn. leggur til, að þetta frv. verði afgr. með rökst. dagskrá, og er hún á þskj. 662. Í nál. eru teknar fram ástæður n. fyrir þessari afgreiðslu. Jafnframt er þar og sagt, og get ég endurtekið það, að allshn. er hlynnt því, að Hafnarfjörður fái þarna land, eftir því sem fært þykir eða hann hefir þörf fyrir. Allshn. leitaði bæði álits biskups og dómsmrn. um þetta frv. Kemur það fram í svörum þeirra, að þeir eru hlynntir þessu máli, en agnúar eru hinsvegar á því að afgr. málið strax, vegna ýmsra ástæðna, og er nauðsynlegt, að frv. fái betri undirbúning áður en það nær samþ. Alþ. Í bréfi því, er biskup sendi, segist hann ekkert sjá til fyrirstöðu því, að þetta sé gert. En mótmæli hafa þó einnig komið gegn þessari sölu. Eru þau frá hreppsnefnd Garðahrepps, og segir hún, að land þetta sé nytjað af 16 bæjum í þeim hreppi og þeim nauðsynlegt að halda afnotum af þessu landi að meiru eða minna leyti. N. telur því nauðsynlegt, að málið sé betur athugað og undirbúið fyrir næsta þing. sé m. a. tekið til athugunar, hve mikið megi missast af landi þarna, eða hvort fært sé að láta Hafnfirðinga fá allt það land, er þeir biðja um og þeim er nauðsynlegt að fá. Og þó n. leggi ráð til, að frv. verði ekki samþ. nú, þá ber ekki að skilja það svo, að hún sé málinu andvíg. Að vísu tefst málið um eitt ár, en það ár ber að nota til þess, að það geti komið vel undirbúið fyrir næsta þing.