11.05.1932
Efri deild: 72. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í C-deild Alþingistíðinda. (3426)

57. mál, land Garðakirkju

Bjarni Snæbjörnsson:

Ég verð að segja fyrir mig, að ég get ekki heldur fylgt þessari rökst. dagskrá. Eins og tekið hefir verið fram, er Hafnfirðingum mjög nauðsynlegt að fá þetta land, sem hér er farið fram á, bæði til beitar og ræktunar. Sérstaklega er sú þörf aðkallandi í því atvinnuleysi, sem nú er í Hafnarfirði eins og annarsstaðar. Og ég efast ekki heldur um, að það sé, rétt hjá hv. 2. landsk., að það sé einlægur vilji hans og yfirleitt þeirra, sem að þessu máli standa, að það komist í framkvæmd. En hinsvegar verð ég að segja, að það hefði sennilega mátt takast að koma því ofurlítið betur áleiðis heldur en gert hefir verið. Hv. 2. landsk. hefir yfirleitt reynzt mjög samningaliðugur maður, a. m. k. hann stutta tíma, sem ég hefi verið með honum hér á þingi. Og ég sé líka einmitt nú í dag, eftir því sem flokksblað hans upplýsir, að hann ætlar sennilega ekki að breyta um þær starfsaðferðir, sem hann áður hefir haft. Því finnst mér, að ef honum hefði verið það mál, sem hér liggur fyrir, mjög mikið kappsmál, þá hefði verið hægt að koma því einhvernveginn inn í samningana, þannig að það fengi afgreiðslu á þessu þingi, svo hægt væri að byrja á atvinnubótunum.

Ég vona, að hv. 2. landsk. skilji, við hvað ég á, þar sem ég hefi séð í flokksblaði hans, að það sé komið eitthvað þannig á döfina, að um samninga sé að ræða milli hæstv. stj. og þingflokkanna. Það hefir eins og ég gat um áður, fyrr komið fram hjá þeim hv. þm., að hann er góður að koma sínum málum fram með tilstyrk annara mála, sem á döfinni eru samtímis í þinginu.