31.03.1932
Neðri deild: 39. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 497 í C-deild Alþingistíðinda. (3437)

216. mál, söltunarlaun úr búi Síldareinkasölu Íslands

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég tók svo eftir af ræðu hv. flm. við fyrra frv., sem hér var á dagskrá og afgr. var til sjútvn. áðan, og sem á það sammerkt við þetta frv., að það er um launagreiðslukröfur á hendur Síldareinkasölunni, að það væri með ráðnum huga, að hann taldi rétt að bera fram um þessi atriði sérstök frv., en ekki blanda heim inn í bráabirgðalögin viðvíkjandi skilum einkasölunnar. Ég hygg, að þetta sé greiðari afgreiðsla, en að sjálfsögðu er það rétt að taka til ýtarlegrar athugunar þessar kröfur, sem bornar eru fram af þeim hv. þm. Eyf., sem sæti á í þessari hv. d., og hv. þm. Ak. Sumt er, ef ég man rétt, borið fram af hv. þm. Ak. einungis og sumt af hv. 1. þm. Eyf. Þessar kröfur hafa áður verið á ferð í atvmrn., og hefir þeim verið vísað til skilanefndar til athugunar. Ég gekk út frá því og lét það í ljós, þegar þessar kröfur komu fram, að sjálfsagt væri, að þær kæmu fram á Alþ. og yrðu þar sérstaklega afgr.

Nú vil ég leggja til, að þessu frv. verði eins og hinu vísað til sjútvn., í þeirri von, að hún, í samráði við lögfræðing og skilanefndarmenn taki það til athugunar, hvað gera á í þessu efni. Sérstaklega um þetta mál finnst mér vafasamt, hvort eigi að gefa út sérstök lög. Finnst mér réttara að hlíta almennum ákvæðum, sem til eru í þessu efni. Vildi ég, að máli þessu yrði vísað til sjútvn., en annars tel ég ekki ástæðu til að láta uppi skoðun mína á því, þar sem ég er ekki lögfræðingur.