15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í C-deild Alþingistíðinda. (3452)

216. mál, söltunarlaun úr búi Síldareinkasölu Íslands

Sveinn Ólafsson:

Ég mun ekki setja mig á móti því, að þetta frv. gangi til n., þótt ég álíti, að það eigi þangað lítið erindi. Hv. þm. Seyðf. hefir bent á ýmislegt að því, sem ég ætlaði að segja, en að vísu hafði ég nefnt sumt af því við fyrrihluta þessarar umr. Þó er rétt að bæta því við til frekari skýringar, að svo stóð á fyrir síldarsaltendum á Austurlandi síðastl. sumar, að á ábyrgð Síldareinkasölunnar voru seldir víxlar til greiðslu á verkalaunum og jafnvel tunnum og salti, sem síldarsaltendur þar lögðu sjálfir fram, gagnstætt venju nyrðra, þar sem einkasalan lagði til hvorttveggja. Þessir víxlar fellu svo á mennina um síðastl. áramót. Þeir hafa orðið að sæta afarkostum vegna þess að þeir voru settir þarna í hættu fyrir einkasöluna, sem gjaldþrota var orðin og þar með víxlaábyrgð hennar ónýt. Ef nokkrir síldarsaltendur eiga að hafa forgangskröfur í bú Síldareinkasölunnar, þá eru það þeir, sem harðast hafa orðið úti og gabbaðir verið með taldrægum loforðum. Síldarsaltendur á Norðurlandi, sem hafa fengið nokkurn hluta af söltunarlaununum greiddan eiga hér engan forgangskröfurétt, heldur þeir, sem ekkert hafa fengið greitt, þó að þeir auk vinnu legðu til bæði tunnur og salt. Með þessu hefi ég raunar sagt, hvernig ég muni taka þessu frv. í sjútvn.