30.05.1932
Neðri deild: 87. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 502 í C-deild Alþingistíðinda. (3455)

216. mál, söltunarlaun úr búi Síldareinkasölu Íslands

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

ég ætla, að óþarft sé að fjölyrða um frv. á þskj. 216, eins þótt nokkur ágreiningur hafi risið í sjútvn. út af efni þess og n. klofnað. Þskj. 504 ber með sér niðurstöður meiri hl. n., og hún leggur til, að málið verði að þessu sinni afgr. með rökst. dagskrá. Ástæðan til þess er fyrst og fremst sú, að ekki er kunnugt ennþá, hverjir viðskiptamenn einkasölunnar verða harðast úti við þrotabússkiptin, og virðist því, ef hverfa ætti að því ráði að forna einhverju af tekjum ríkissjóðs af einkasölunni til að jafna skakkaföllin hjá öðrum skiptavinum hennar, að réttast sé að láta það koma niður á þeim, sem harðast hafa orðið úti í viðskiptunum. Nú verður í fljótu bragði ekki séð, að það muni vera síldarsaltendur nyrðra, sem vitað er, að hafa þó fengið nokkuð af innieignum sínum greitt, jafnvel helming þeirra. En um aðra skiptavini einkasölunnar er það kunnugt, að sumir þeirra hafa ekkert fengið greitt, hvorki verkalaun, síld eða umbúðir. Af þessum ástæðum leggur meiri hl. n. til, að frestað verði málinu þangað til sjá megi, hverjir eigi ríkasta sanngirniskröfu til þess að fá eitthvað bætt af þeim skakkaföllum, sem þeir hafa beðið í skiptum sínum við Síldareinkasöluna. Að skipa nú fyrir með lögum um forréttindi til handa einstökum gjaldheimtumönnum og gera þá rétthærri en alla aðra finnst meiri hl. n. ekki geta til greina komið. Auk þess orkar það líka mjög tvímælis, hvort rétt er, eins og frv. gefur í skyn, að líta á söltunarlaunin eins og forgangsskuld, þar sem í þeim eru fólgin ýms óskyld gjöld, bryggjuleigu o. fl. Og þótt síldarsaltendur hafi haft með höndum síldarsöltun, fyrir einkasöluna, þá munu þeir tæplega verða taldir hjú hennar eða verkamenn í orðsins eiginlega skilningi.

Ég vil geta þess áður en ég lýk máli mínu, að ég tel þá ekki hafa orðið harðast úti, sem lagt hafa Síldareinkasölunni til hráefni eingöngu eða aðeins verkað síldina, heldur hina, sem lögðu jafnhliða síldinni til tunnur, salt og verkun síldar. En svo var um menn þá á Austurlandi, sem afhentu einkasölunni síld og áttu því, í líkingu við þá, sem söltuðu norður frá, að fá eitthvað greitt, en fengu ekkert. Þeim bauðst sú greiðsla ein, að Síldareinkasalan ábyrgðist víxla, sem þeir seldu til lúkningar nokkurs hluta af áætlaðri skuld einkasölunnar, en sjálfir urðu þeir að greiða þá víxla við síðustu áramót þegar ábyrgð einkasölunnar var að engu orðin. Þessir menn hygg ég, að hafi orðið harðast úti, og ef til kæmi, að einhverjum ætti að ívilna um viðskiptin við einkasöluna, ættu þeir að ganga fyrir, er svo er ástatt um sem ég nú lýsti.

Ég sé ekki ástæðu til að taka fleira fram, eins og atvikin liggja til um þetta mál. Legg ég til, að því verði frestað og dagskrá meiri hl. n. samþ.