30.05.1932
Neðri deild: 87. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 503 í C-deild Alþingistíðinda. (3456)

216. mál, söltunarlaun úr búi Síldareinkasölu Íslands

Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg):

Eins og sjá má af þskj. 524, leggur minni hl. til, að frv. verði afgr. með örlitlum breyt.

Við 1. umr. frv. dró ég fram helztu rökin fyrir þeirri málaleitun, sem farið er fram á með frv., og tel því ástæðulaust að endurtaka þau nú, þar sem líka líður senn að þinglausnum og vonlaust um, að frv. nái fram að ganga að þessu sinni.

Annars hefði ég kosið, að frv. hefði fengið að ganga til 3. umr., en sé þó hinsvegar ekki ástæðu til að beita mér gegn því, að rökst. dagskráin á þskj. 504 verði samþ.

Ég tel sjálfsagt, að málið verði tekið upp aftur á næsta þingi, og verður þá auðveldara að glöggva sig á því, er fyrir liggja dómar í málum þeim, sem síldarsaltendur hafa höfðað til þess að fá skorið úr um forgangskröfurétt þeirra á söltunarlaununum. Svo að því leyti hlýtur aðstaðan að verða betri þá en nú, er allar slíkar upplýsingar liggja fyrir.

Sé ég því ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta að sinni.