15.04.1932
Neðri deild: 52. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 507 í C-deild Alþingistíðinda. (3467)

368. mál, skiptalög

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Þetta litla frv. flytur samgmn. aðeins til þess að koma því nýmæli inn í skiptalögin, að símagjöld hafi sama forgangskröfurétt í þrotabúum og önnur opinher gjöld. Að vísu hefir verið lítið svo á undanfarið af almenningi, að símagjöld hefðu þennan forgangsrétt jafnt öðrum gjöldum til ríkissjóðs. En af því að það hefir nýlega komið fyrir, að einn skiptaráðandi hefir gengið gegn þessu áliti og úrskurðað, að símagjöld hefðu ekki þennan forgangsrétt, þá gæti svo farið, að fleiri kæmu á eftir, sem litu eins á. Og þá er augljóst, að á ríkissjóði mundi það bitna. Réttaróvissa um þessi gjöld hlýtur að koma sér illa og auka umstang og vafninga, þegar þau hlíta ekki sömu ákvæðum og önnur opinber gjöld, svo sem tollar og skattar. Annars sýnir grg. frv. bezt, hver nauðsyn er á þessari tryggingu, sem í frv. felst, og vænti ég, að eftir að hv. þdm. hafa kynnt sér málavöxtu, viðurkenni þeir, að sömu ákvæði eigi að gilda um forgangskröfurétt símagjalda sem annara opinberra gjalda til ríkissjóðs, sveitarsjóða og bæja eða kirkna.