23.04.1932
Neðri deild: 58. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 511 í C-deild Alþingistíðinda. (3476)

368. mál, skiptalög

Frsm. (Sveinn Ólafsson):

Við 1. umr. þessa máls komu fram nokkrar aths. við frv., aðallega tvennskonar. Í fyrsta lagi, að ekki væri nauðsynlegt að lögfesta fyrirmæli þess, og í öðru lagi, að ef það yrði lögfest, mundi bezt fara á því að ákveða forgangskröfuréttinn ekki einungis fyrir símagjöld, heldur einnig fyrir afnotagjöld til útvarps. Vegna þessarar síðari aths. hefir meiri hl. samgmn. flutt brtt. við frv. á þskj. 481, og er það þó fremur um orðabreyt. að ræða en að efni.

Út af því, að hér komu fram yfirlýsingar frá tveim hv. þm. í þessari deild við 1. umr. málsins um það, að óþarft væri að setja í lög einstök fyrirmæli um það, að símagjöld hefðu forgangskröfurétt við þrotabúaskipti sem önnur opinber gjöld, virðist mér ástæða til að minna á það af nýju, að einn skiptaráðandi hefir nú nýlega gengið gegn þeirri skoðun og fellt úrskurð gagnstætt þeim skilningi, sem hingað til hefir ríkt í þessum efnum, og virðist því vera sjálfsagt að ganga svo frá þessu, að skýlaus séu fyrirmælin um forgangskröfurétt símagjalda; tel ég af þeim ástæðum, að frv. eigi fyllsta rétt á sér og að rétt sé að láta það verða að lögum. Sé ég ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum, en að því er snertir brtt. á þskj. 481, sem ég áðan drap á, er hún aðeins orðalagsbreyt. og skýrir sig fyllilega sjálf.