29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í C-deild Alþingistíðinda. (3487)

71. mál, sauðfjármörk

Ingólfur Bjarnarson:

Ég stend upp til þess að styðja till. hv. minni hl. n. um að vísa málinu heim til héraðanna. Er það þó ekki af neinni óvild til málsins gert, heldur af hinu, að ég tel, að sú aðferð muni leiða til þess, að málið verði betur undirbúið og lögin því betur úr garði gerð, þegar þau verða sett, eftir að hafa fengið slíka athugun. Ég get nú ekki séð, að um þessa leið þurfi að vera nokkur ágreiningur, einkum þegar þess er gætt, að hv. frsm. meiri hl. lýsti því yfir fyrir sína hönd og annara þeirra, er að þessu frv. standa, að hér væri um frumsmíð að ræða, sem þurfa mundi endurbótar við áður langt um líður. Ágreiningurinn ætti þá að liggja í því, hvort betra væri að samþ. l. fyrst og breyta þeim svo strax aftur, eða að lagfæra fyrst frv. eftir því sem frekast er hægt, og samþ. það svo.

Ég verð nú að segja, að mér þykir meira en nóg að því gert að breyta l. á næsta eða næstu þingum eftir að þau hafa verið sett, en það stafar af því, að er þau koma til framkvæmda, kemur það í ljós, að þau hafa ekki verið nógu vel undirbúin. Vil ég ekki að verið sé að gera leik til þess, og í þessu tilfelli sé ég heldur, ekki, hvers vegna ætti að gera það.

Þessi lög verða svo mjög staðbundin við hina ýmsu hluta landsins, að nauðsynlegt má telja að fá bendingar sem víðast að, á hvern hátt þeim verður bezt fyrir komið. En þar sem ég tel, að frv. megi á ýmsan hátt betur fara, ef sú leið verður tekin að lögfesta það nú, geri ég ráð fyrir að koma fram með brtt. við 3. umr. Það er augljóst, að frv. er í sumum atriðum alveg óviðunandi og þarf því að taka breytingum, enda gerði hv. frsm. meiri hl. ráð fyrir því. Annars er það nokkuð einkennilegt, að hann telur sig vera óánægðan með frv., en vill þó endilega fá það afgr. nú þegar. Og þar sem frv. er hvort sem er, þótt lögfest verði, ekki ætlað að koma til framkvæmda fyrr en eftir nokkuð langan tíma, þá tel ég þeim tíma einmitt bezt varið á þann hátt að láta héraðstjórnirnar segja álit sitt um það og gefa bendingar um það, sem þær telja, að betur megi fara. Vil ég að því styðja með atkv. mínu og greiði því atkv. með dagskrártill.