29.04.1932
Neðri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í C-deild Alþingistíðinda. (3493)

71. mál, sauðfjármörk

Lárus Helgason:

Ég er einn af þeim, sem ekki vilja stuðla að því, að hrapað verði að þessu máli. Ég sé ekki betur en það sé óhugsandi, að Alþingi setji lög um þetta efni, sem verði heppileg fyrir alla landshluta, án þess að leita álits þeirra. Vitanlega rennur fénaður ekki landshorna á milli, og ég er viss um, að ef fara á að grauta í því að setja allsherjarlög um þetta efni; þá fer á sömu leið og um árið, þegar drífa átti sýslu- og hreppamörkin í gegn. Hv. frsm. meiri hl. gat þess, að þau hefðu þá fengið þá mótstöðu, að það væri ennþá óhugsandi að koma þeim í gegn, og ég býst við, að farið gæti á sömu leið fyrir þessum lagabálki. Ég hygg það vel ráðið að fresta því um sinn að lögtaka þetta frv. og er því einráðinn í að fylgja dagskránni. Mér væri raunar skapi næst að fylgja því, að Alþingi gerði ekkert í þessu máli, því það eru hin einstöku sýslufélög, sem eiga að raða í þessu efni, ekki þingið.