14.05.1932
Efri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 541 í C-deild Alþingistíðinda. (3507)

71. mál, sauðfjármörk

Frsm. (Páll Hermannsson):

Eins og hv. dm. mun vera kunnugt, hefir það löngum verið svo undanfarið, að sýslunefndir og héraðsstjórnir, hver á sínu svæði, hafa annazt um fjallskil, fjárskil, refaveiðar og ýmislegt í því sambandi, þ. á m. mörkun sauðfjár. Það hefir löngum þótt brenna við, og talið fara heldur í vöxt, að þetta fyrirkomulag hafi ekki fullnægt þeim kröfum, sem gera þarf í sambandi við eignarrétt og eignarhald manna á sauðfénaði. Það hefir ætið orðið svo, að vanskil hafa orðið mikil á sauðfé, og hefir þótt við brenna, að þessi vanskil stæðu í sambandi við mörkun fjárins. Námerki, þ. e. a. s. mörk, sem eru svo lík, að hægt er að villast á þeim, eru og algeng og valda misdrætti og vanskilum. Sammerkingar, þ. e. a. s., þegar tveir eða fleiri menn eiga sama markið, eru líka allt of algengar og allvíða það bagalegar, að báðum eigendum marksins verður að óliði. Kindur eru teknar í vafa og verða aldrei að notum nokkrum eiganda marksins, þótt víst sé, að einhver þeirra eigi kindina. Þá hefir það einnig komið fyrir, og ber mjög á því enn, að sama mark hafi eitt nafn í þessu byggðarlagi og annað í hinu, þótt ekki sé lengra á milli byggðarlaga en það, að sauðfé geti gengið saman. Þetta veldur því, að miklu verður óhægara að átta sig á markalýsingum eða auglýsingum á mörkum vafafjár, og missa eigendur eign sína stundum af þessum sökum, þá er það og víst, að víða hagar svo til, að ekki eru skýr eða ákveðin takmörk frá hendi náttúrunnar á milli sýslna, þannig að fénaður gengur mjög saman úr tveimur eða fleiri sýslum. Þar, sem svo hagar til, verður eðlilega að vera náin samvinna milli sýslna og héraða, þegar ákveðið er um, hver skuli eigandi að mörkum, og um prentun markaskrár og annað, er lýtur að eignarhaldi á sauðfé, því að það getur verið eins bagalegt eða bagalegra, að námerki eða sammerki séu á milli sýslna eins og innbyrðis í einu sýslufélagi. En nú hefir samvinna á milli sýslufélaga víða farizt fyrir enn þann dag í dag, og nokkuð ber á þessu í seinni tíð á stöku stað.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að gerð verði sú höfuðbreyt., að valdið yfir þessum málum verði nú dregið saman og að ekki verði það lengur hver sýsla út af fyrir sig, sem annast um þessi málefni framvegis, heldur verði sú umsjá og valdið yfir þessum málum dregið saman á einn stað fyrir allt landið í heild. Í 6. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að atvmrh. skipi tvo menn í markadóm og að þriðji maðurinn, formaður markadómsins, skuli vera sauðfjárræktarráðunautur Búnaðarfél. Íslands, sem jafnframt er nefndur markavörður. Þessi þriggja manna n. á svo að taka að sér fyrir landið allt þá umsjón með mörkum og markaskrám, sem áður hvíldu á héraðstjórnunum, hverri á sínu svæði. Í 5. og og 7. gr. er nánar tekið fram, hver skuli vera störf markadóms, en þau eru, í auðveldum orðum sagt, að hafa á hendi fyrir allt landið það vald, sem héraðsstjórnir höfðu áður í sambandi við mörkin og þau mál, sem að mörkunum lúta. Gert er ráð fyrir því í 8. gr., að heima í hverri sýslu sé einn maður, sem safnar mörkum á þeim tíma, sem á að prenta markaskrá, og fái fyrir það ákveðið gjald, þar tilgreint. Í gr. eru ákvæði um, hvað skuli greitt fyrir prentun marka. Ætlazt er til, að greidd verði 1 kr. fyrri hvert af fyrstu mörkunum, en 5 kr. fyrir hið þriðja, og svo hækkandi um 5 kr., ef mörkin hjá einum eiganda verða fleiri. Þarna liggur í frv. nokkur umbót á því, sem víða hefir verið venja, að menn hafa stundum haft fjármörk eins mörg og kindurnar, sem þeir hafa átt, og hefir af þessu orðið talsvert óhagræði. En líkindi eru til þess, að þegar sú venja er tekin upp að greiða mikið hækkandi gjald fyrir aukinn markafjölda, þá leggi menn niður þann ósið að eiga að óþörfu óhæfilega mörg mörk. (GÓ: Fleiri en kindurnar). Til þess er ætlazt, að þetta gjald, sem goldið er, renni í ríkissjóð, en úr ríkissjóði verði svo greiddur allur kostnaður við markadóm, prentun markaskrár og auglýsingar marka í Lögbirtingablaðinu þegar það þarf að eiga sér stað, eftir að hin nýju ákvæði, sem í frv. standa, eru komin til framkvæmda.

Í 15. gr. eru settar reglur um, hvernig skuli skipta landinu niður í flokka í sambandi við prentun markaskráa. Einhverjum kynni að sýnast, að þessu mætti haga öðuvísi en þarna er lagt til. Hitt er vitanlegt, að fara verður eftir föstum reglum frá byrjun, þegar gengið er inn á þá braut að gera allt landið að einn marka- og markaskrárumdæmi og rýma úr vegi hinum mörgu smádómum, sem hingað til hafa verið í landinu. Landbn. hefir talsvert athugað þetta og hefir orðið um það samkomulag að leggja til við d., að frv. verði samþ. með lítilsháttar breyt., sem hér eru á þskj. 716. Þessar breyt. eru auðskildar. Fyrsta breyt. er við 8. gr. frv. Í 8. gr. er gengið út frá því, að maður sá, sem á að safna saman mörkum heima í héraði, fái fyrir sína fyrirhöfn 20 % af því gjaldi, sem greitt verður fyrir mörkin úr héraðinu. Það skal játað, að það er nokkurt álitamál, hvaða gjald teljist sanngjarnt í þessu efni. Í frv. því, sem lagt var fyrir vetrarþingið í fyrra, er gengið út frá því, að gjaldið verði 10%, en nú er gengið út frá 20%. N. virtist, að nokkur sanngirni mælti með því, að hér yrði farið bil beggja og lagt til, að í staðinn fyrir 20% komi þarna 15%. Að vísu lítur n. svo á, að þetta yrði e. t. v. meira verk í byrjun heldur en þegar föst skipun yrði komin á markaskrárumdæmi, en að þá mundi mega telja þetta hina sæmilegustu greiðslu.

Þá hefir n. gert brtt. við 11. gr., um að upphaf gr. orðist eins og þar greinir. Það er aðeins orðabreyt., og geri ég ráð fyrir, að hv. dm. sýnist hún sjálfsögð.

Í þriðja lagi hefir n. lagt til, að orðuð verði um fyrri málsgr. 14. gr. Þessi fyrri málsgr. 14. gr. gerir ráð fyrir því, að ef lamb sé ómarkað eða óglöggt markað, þá helgi móðirin eignarréttinn. Það mun hafa verið venja, að svo væri litið á, að ær helgaði eignarrétt á lambi undantekningarlaust, nema hægt væri að sanna annað. Það er ekki óalgengt, að lamb mismarkist undir glöggt og greinilegt mark, er hefir verið gert í ógati og eigandi marksins er ekki eigandi lambsins. Ærin þekkir lambið í langflestum tilfellum miklu betur en maðurinn. N. leggur því til, að þessu verði breytt á þann hátt, sem í brtt. stendur, að ærin helgi eignarréttinn á lambi, nema hægt sé að sanna, að annað sé réttara.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meir um þetta að sinni, en leyfi mér f. h. n. að leggja til, að frv. verði samþ. með brtt. á þskj. 716.