14.05.1932
Efri deild: 75. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í C-deild Alþingistíðinda. (3509)

71. mál, sauðfjármörk

Frsm. (Páll Hermannsson):

Hv. 2. þm. Eyf. sagðist ekki búast við, að hægt væri með einum saman lögum að bæta úr vandkvæðum og ólagi, sem verið hefir á þessu markmáli undanfarið. Er það rétt hjá hv. þm., að slíkt er ekki hægt. Vanskil, misdráttur og það, að fjáreigandi tapi miklu af eign sinni, stafar ekki af því, að ekki hafi verið til sæmilegar reglur, ef þeim hefði verið framfylgt, heldur mest af því, að einstaklingarnir eru misjafnir hirðumenn. Hitt er vist, að löggjafarvaldið getur mikið hjálpað til, einkum þeim, sem ekki eru trassar. Gæti það hjálpað, til við útbúnað skipulags, sem yrði affarasælla en það, sem nú er.

Hv. þm. sagði, að þetta vald væri tekið af héraðsstjórnum að þeim fornspurðum. En ég held, að héraðsstjórnum hafi verið kunnugt, að verið væri að undirbúa þessa löggjöf. Vitanlega var málið til meðferðar á vetrarþinginu 1931. Hefi ég veitt því eftirtekt, að sumstaðar hefir verið minnzt á málið í fundargerðum héraðsstjórna.

Þessi hv. þm. sagðist vilja leita álits héraðsstjórna um málið. Það er hægt að segja, og er ekkert við það að athuga. En ég geri þó ekki mikið úr því, að líklegt væri, að þótt skipulagsbendingar kæmu frá sveitarstjórnum, yrði svo mikið heildarsamræmi í þeim, að mikið yrði á heim að græða. Held ég ekki, að svo hafi verið um þau mál, sem álits sveitarstjórna hefir verið leitað um. í áframhaldi af þessari skoðun hv. þm., ber hann fram rökst. dagskrá þess efnis, að málinu verði frestað og það borið undir álit sveitarstjórna áður en það sé til lykta leitt. Ég skal játa það, að þar sem í frv. er gert ráð fyrir nokkrum drætti á því, að málið komist fram, ætti þetta ekki að tefja mikið fyrir því, en ég efast samt um, að mikið gagn hlytist af. Má líta á það, að þegar er búið að leggja þó nokkra vinnu í frv., og þótt hún yrði ekki alveg ónýt, ef málinu yrði frestað, myndi það þó alltaf taka nokkurn tíma. Sé ég því ekki ástæðu til þess að samþ. þessa rökst. dagskrá.