17.05.1932
Efri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í C-deild Alþingistíðinda. (3528)

581. mál, veitingasala, gistihúsahald o.fl.

Jón Þorláksson:

Það getur vel verið, að fyrir höfundum frv. hafi ekki vakað annað en það, að meina farþegum, er ferðast milli landa, dvöl í skipunum. En það hefir ekki tekizt að orða frv. svo, því það nær til allra farþega á millilandaskipum, og er ekki um það deilt, að það eru öll þau skip, sem eru í stöðugum ferðum milli landa, þótt þau reki strandsiglingar jafnframt.

En jafnvel þótt þessi skilningur væri viðurkenndur, að frv. tæki ekki til farþega, er ferðuðust hafna milli innanlands, þá getur þetta þó verið varhugavert. Það getur tekið til erlendra skemmtiferðaskipa, sem koma hingað og snúa við eftir skamma dvöl. Þetta mundi með öllu útiloka slík skip frá að sækja hingað, því það tíðkast hvergi, að farþegar af slíkum skipum séu reknir í land og neyddir til að leita til gistihýsa. Af því að slík ferðalög tíkast um allan heim, dreg ég þá ályktun, að svona löggjöf geti hvergi verið til. Og ég er hræddur um, að landinu sem ferðamannalandi verði ekki gerður neinn greiði með slíkri löggjöf.

Nú hefði ég ekkert sérstaklega á móti því að handa hendinni við aðferð þessa erlenda félags og setja slíka löggjöf um þau skip, sem ekki eru eingöngu farþegaskip, heldur annast einnig vöruflutninga. En þetta frv. gengur miklu lengra. Mér virðist hv. allshn. ekki hafa lagt sérstaklega mikla rækt við að athuga það og vil því gera það að tillögu minni, að því verði vísað til stjórnarinnar til fyllri athugunar.