23.03.1932
Efri deild: 36. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 820 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

4. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Ég mun greiða atkv. með því, að þessu frv. sé vísað til 2. umr. og n., og er ástæðan til þess sú, að ég tel hugsanlegt að leggja á svipaðan skatt og þennan án þess að hann verði notaður til almennra ríkissjóðsútgjalda, eins og gert er ráð fyrir í frv., og ég tel því ekki rétt að leggjast á móti því, að málið komist í n. til athugunar á þessu atriði sérstaklega.

Það hefir oft komið til tals, og er í rauninni lögtekið áður með bifreiðaskattslögunum, að leggja á sérstakan skatt til að gera þær umbætur á bílvegum, sem gera má ráð fyrir, að ekki fáist á annan hátt, og ég álít því rétt, að þetta komi til athugunar í n.