28.04.1932
Neðri deild: 62. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í C-deild Alþingistíðinda. (3548)

262. mál, vélgæsla á gufuskipum

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Síðan frv. þetta var til 2. umr. hér í d. hafa komið fram aths. við það frá mönnum utan þingsins, forstöðumönnum vátryggingarfélaganna, sem sjútvn. þótti rétt að taka til athugunar. Hefir hún því að nýju haldið fund um málið og samþ. einhuga að bera fram nokkrar brtt. við hið upprunalega frv., og er þær að finna á þskj. 556.

Í 1. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að menn, sem hafa vélstjóraréttindi eða bráðabirgðaskírteini til 5 ára eða lengur, geti fengið fullnaðarskírteini hjá lögreglustjórum landsins, sem veiti þeim takmörkuð vélstjóraréttindi til þess að vera yfirvélstjórar á skipum með 200 hestafla vél og undirvélstjórar á skipum með 900 hestafla vél. Hér gæti því verið um það að ræða, ef þetta yrði lögfest eins og það nú liggur fyrir, að þessum mönnum yrði í sumum tilfellum veitt meiri réttindi en þeir áður höfðu með undanþágunni, og í sumum tilfellum minni. Sjútvn. komst að þeirri niðurstöðu að athuguðu máli, að rétt væri að binda undanþáguna við þau réttindi, sem þeir hefðu haft og sem þeim hefði oftast eða alltaf beinlínis verið veitt með samþykki stjórnar vélstjórafélagsins.

Hvað 2. gr. snertir, þá er þar sérstakt atriði, þess efnis, að þeir menn, sem svo sé ástatt um og 1. gr. tiltekur, geti öðlast réttindi með því að stunda nám skemmri tíma en krafizt er af öðrum.

Brtt. hv. 4. þm. Reykv. á þskj. 516 gengur í sömu átt. Sú till. er fjarstæða sem brtt. við 1. gr., hún gæti ef til vill komið í stað 2. gr., og þá gæti komið fram Það, sem fyrir hv. flm. vakir. Sjútvn. mun beita atkv. sínum gegn þessari till. sem brtt. við 1. gr., en vel er hugsanlegt, að hún greiddi atkv. með henni sem breyt. á 2. gr.

Það virðist svo, sem vélstjórafélagið leggi kapp á það að koma í veg fyrir, að þessir menn, sem gegnt hafa vélstjórastarfi með undanþágu, geti haldið því starfi áfram. Og þó hafa þessir undanþáguvélstjórar allir fengið atvinnu sína með samþykki þess félags. Alltaf þegar komið hefir til mála að fá hingað erlenda vélstjóra á íslenzk skip, hefir stjórn vélstjórafélagsins sett sig á móti því, en hinsvegar mælt með því, að kyndurum væri veitt undanþága til þess að gegna þessu starfi. Svona hafa þessar undanþágur orðið til. Nú vill vélstjórafélagið endilega henda þessum mönnum í land og setja aðra menn í stöðurnar. Ef þetta hefir verið tilgangurinn frá byrjun með, því að varna útgerðarmönnum að taka erlenda kyndara, sem höfðu fulla þekkingu á þessu starfi, en taka í þess stað próflausa menn, til þess að geta rekið þá frá starfinu aftur, verð ég að telja, að það sé nokkuð kaldrifjuð stéttapólitík. Auðvitað mátti ganga að því vísu, hefðu erlendir vélstjórar ráðizt hingað, að þeir hefðu ílenzt hér, og sennilega fengið með tímanum íslenzkan ríkisborgararétt. Því hefir vélstjórafélagið sennilega séð sér leik á borði að mæla með, að flinkum kyndurum yrðu veittar undanþágur, því að þá hefir það alltaf þótzt hafa í hendi sér.

Það hefir verið bent á þá hættu, sem öryggi skipa og lifi sjómanna sé búin meðan notazt er við ólærða vélstjóra. Ef þetta var hættulaust meðan velja varð á milli lærðra erlendra vélstjóra og innlendra kyndara, þá skil ég ekki, að það sé hættumeira nú, þegar þessir menn hafa starfað sem vélstjórar í mörg ár. Ég sé ekki, að stjórn vélstjórafélagsins geti notað þessa grýlu um minnkað öryggi sjómanna og skipa sér til nokkurs gagns.

Þá hefir verið borin hér fram sú röksemd, að sanngjarnt væri að láta þá, sem hafa lagt í langt og erfitt nám í þessum fræðum, ganga fyrir. Þó að ég eða sjútvn. vilji á engan hátt rýra sanngjörn réttindi þessarar stéttar, held ég því fram, að þeir menn, sem gegnt hafa starfi þessu með sóma í mörg ár, eigi líka réttindi, — þau réttindi að mega halda þessu starfi áfram, þó með þeim takmörkunum, að þeir hafi haft það með höndum í 2 ár.

Þá vil ég minnast á brtt. á þskj. 556. Eins og ég hefi tekið fram áður, hefði, ef frv. yrði samþ. eins og það nú liggur fyrir, í einstökum tilfellum verið hægt að veita vélstjórum með undanþágu meiri réttindi en þeir nú hafa. En með þessari breyt. er alveg fyrir þetta tekið. Ef vélstjóri, sem hefir gegnt vélstjórastarfi í 5 ár með undanþágu ásama skipi með t. d. 100 hestafla vel, þá getur hann fengið réttindi til vélstjórnar á gufuskipum með jafnstórri vel. Þetta er einfaldasta dæmið. En í langflestum tilfellum er því ekki þannig varið, að vélstjóri hafi verið á sama skipi og við vél af sömu stærð langan tíma. Þótti n. því ekki rétt að leggja til, að þessir menn skyldu fá þau réttindi sem vélstjórar, er þeir hefðu mest haft skv. bráðabirgðaskírteini, og leggur því til, að eigi verði frekari réttindi veitt undanþáguvélstjóra til vélstjórnar en hann getur sannað, að hann hafi haft samtals 2 ár samkv. bráðabirgðaskírteini. Þegar um slík ákvæði sem þessi er að ræða, getur oft risið ágreiningur, og því er gert ráð fyrir í frv., að lögreglustjóri afhendi skírteinið, þegar enginn vafi er á um réttindin, en rísi ágreiningur út af skilningi þessara ákvæða, skuli atvmrh. skera þar úr. Ég mun svo geyma frekari umr. þar til hv. 4. þm. Reykv. hefir mælt fyrir brtt. á þskj. 516.