27.05.1932
Efri deild: 85. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 599 í C-deild Alþingistíðinda. (3566)

262. mál, vélgæsla á gufuskipum

Bjarni Snæbjörnsson:

Mér þykir mjög leiðinlegt, að hv. þm. skuli ekki hafa tekið rétt eftir því, sem ég sagði í minni ræðu. Hún sagði, að ég hefði sagt, að vélstjórastéttin væri yfirleitt óreglusöm stétt. Þetta hefi ég aldrei sagt. Ég hafði um þetta nákvæmlega sömu orð og hv. þm. Ég sagði, að þó í þessari stétt væru margir prýðilegir menn, þá væri það vitaskuld, að innan svo fjölmennrar stéttar væri misjafn sauður í mörgu fé. Þetta er nákvæmlega það sama og hv. þm. sagði og ég skrifaði hér niður eftir henni. Hún sagði, að það væri ekki að undra, þó að í svo fjölmennri stétt fyndust drykkfelldir menn innan um. Þetta er nákvæmlega það sama.

Það má nú segja það, að hv. þm. hafi aflað sér mikils fróðleiks um vélstjórana, þó ég verði hinsvegar að segja, að sá fróðleikur er ekki allur sannleikanum samkvæmur, t. d. ekki það, sem hún sagði, að í vetur hefði ekki verið nema 1 undanþágumaður, því t. d. bara í Hafnarfirði voru þeir nú 2. (GL: Ég sagði 3 eða 4). Já 3 eða 4 í fyrra, en 2 í vetur. (GL: Nei, 3 eða 4 í vetur, en 1 í vor. Ég vona að skrifararnir hafi farið rétt með tölurnar).

Það er hart að láta þessa menn, sem unnið hafa útgerðarmönnum og þjóðinni stórmikið gagn, og vélstjórum líka, þegar ekki fengust neinir lærðir vélstjórar á skipin, engra hlunninda njóta, heldur henda þeim burt frá atvinnu sinni. Því það er það, sem gert er, þegar þeir verða annaðhvort að hætta eða ganga á skóla, sem margir þeirra eru orðnir alófærir til, ýmist sakir aldurs eða ómegðar, eða hvorstveggja.

Hitt, að fara að setja upp sérstakt vélanámsskeið fyrir þessa menn og láta þá vera þar og taka málamyndapróf, það álit ég einskis virði fyrir þá. Það, sem hv. 6. landsk. skyrði hér frá um námsgreinar vélstjóraskólans. sýnir, að með öllum þeim reikningi, sem þar er kenndur, eru þessir menn ekkert bættari, hvort sent þeir fá 6 mánaða reikningskennslu eða ekki, eða a. m. k. sáralítið betur settir fyrir þá stærðfræði, sem þeir læra á 6 mánuðum, sérstaklega þó sá maður, sem er orðinn stirður til náms af því, hvað hann er orðinn gamall. Og sama er að segja um málakennsluna og gagnið af henni.

Það eina, sem er gagn að fyrir þessa menn og ég hefði viljað, að hv. sjútvn. hefði lagt til og ég fer nú fram á, er að samþ. þetta frv. En þó sú breyt. yrði gerð á frv. við 3. umr. að takmarka það meira, þannig að þetta 5 ára skilyrði yrði hækkað, t. d. í 10 ár, og þannig fækkað þeim mönnum, sem lögin tækju til, þá álít ég, að það væri þó mjög mikil bót að þeim lögum, því að undir þau kæmu þá þeir menn, sem versta aðstöðuna hafa til þess að geta lært, en hafa bezta þekkingu til að bera af undanþágumönnunum.

Hvað viðvíkur því, sem hv. þm. sagði um læknana, þá er það nákvæmlega sami misskilningurinn, sem þar kom fram hjá hv. þm., eins og kom fram í ræðu hennar áður, eins og t. d. það, að það mætti ætlast til, að ég leyfði að demba, eins og hún orðaði það, ómenntuðum læknum inn í spítala og láta þá fara að lækna sjúklingana. Þetta er ekki sambærilegt við þetta frv., af því að þessir undanþágumenn eru ekki ómenntaðir menn í sínu starfi, heldur hafa einmitt mjög mikla þekkingu á því. og í læknafrv. vonast ég til, að ekki sé hægt að benda á annað en að öllum, sem höfðu fengið réttindi til einhvers, hafi verið leyft að halda þeim; t. d. allir menn með takmörkuðu lækningaleyfi, svo sem nuddarar og hómopatar, fengu að starfa að slíkum hlutum áfram jafnt og þeir höfðu áður réttindi til. Og í þessu frv. er ekki verið að fara fram á annað en það, að hv. Alþ. vilji leyfa það, að þeir, sem hafa haft ákveðin réttindi, fái að halda þeim rétti, sem þeir hafa haft. þess vegna finnst mér þetta allt annað en hitt, sem alltaf er verið að tala um, að þessir menn, sem séu alveg ómenntaðir, komi þarna í stórum hóp inn í vélstjórastéttina, alveg eins og þessir undanþágumenn hefðu aldrei starfað að vélgæzlu og aldrei haft réttindi til þess að neinu leyti.

Annars býst ég ekki við, að það komi nú framar neitt sérstakt eða nýtt fram í þessu máli í þessari hv. d., og skal ég því ekki vera að lengja umr. meira. En mér finnst það harkalegt að fara svona með þessa menn, sem við stöndum í svo mikilli þakklætisskuld við.