28.05.1932
Neðri deild: 86. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í C-deild Alþingistíðinda. (3574)

44. mál, vegalög

Steingrímur Steinþórsson:

Ég vil taka í sama streng og hv. þm. Borgf. og skora á stj. að undirbúa þetta mál sem bezt fyrir næsta þing. Það er ekki vafi á því, að svo miklar breyt. hafa orðið í samgöngumálum hér á landi síðan fyrir 8 árum, er vegal, voru sett, eins og hv. þm. Borgf. og réttilega tók fram, að nauðsynlegt er að gera ýmsar breyt. í þessum efnum. Þótt rétt sé hjá hv. frsm., að enn sé margt ógert, sem ákveðið var með vegal. 1924, er það engin sönnun fyrir því, að að ekki sé nú rétt að taka upp í vegal., vegna breyttra ástæðna, marga vegi, sem þá voru ekki teknir upp í vegal. Er hin mesta nauðsyn, að þetta mál allt sé sem bezt rannsakað, og vil ég því endurtaka þá áskorun, að stj. sjái svo til, að málið fái sem ýtarlegastan undirbúning fyrir næsta þing, svo að málið þá geti fengið endanlega afgreiðslu þingsins.

Mér skilst, að það muni hafa litla þýðingu að mæla með brtt., eins og málinu er komið, en úr því að ég stöð upp á annað borð, vil ég þó leyfa mér að fara nokkrum orðum um þær brtt. á þskj. 63, sem við þm. Skagf. flytjum við frv.

Eins og kunnugt er, hagar svo til í Skagafirði, að fjörðurinn klýfur héraðið nokkurn veginn í tvennt, og eru sveitir beggja vegna við fjörðinn, en aðalhéraðið liggur þó upp af firðinum. Í austurhéraðinu er enginn þjóðvegur, nema örstuttur vegarspotti frá Hofsósi til Hjaltadalsarbrúar, sem tekinn var í tölu þjóðvega fyrir nokkrum árum, og er þessi vegarspotti þannig ótengdur við þjóðvegakerfi landsins í báða enda. Leggjum við því til með brtt. okkar, að vegur frá Sauðarkróki um Hegranes að Hjaltadalsarbrú til Hóla í Hjaltadal og eins vegurinn frá Héraðsvatnabrú á Grundarstokk að Vatnsleysu í Viðvíkursveit verði teknir upp í þjóðvegatölu. Vegurinn fram að Hólum í Hjaltadal er að vísu dálítill krókur, en fyrir þeim krók liggja þær röksemdir, að á Hólum er bændaskóli, og hefir verið venja, að vegarspottar heim til bændaskólanna væru teknir í tölu þjóðvega, og svo var t. d. gert að því er snertir bændaskólann á Hvanneyri.

Þá leggjum við það ennfremur til, að vegur frá Hofsós um Sléttuhlíð og Fljót til Siglufjarðar verði einnig tekinn í tölu þjóðvega, og verður öll leiðin frá Sauðarkróki til Siglufjarðar þar með tekin upp í þjóðvegakerfið. Siglufjörður er eini stærri kaupstaðurinn á landinu, sem ekki er í vegasambandi við landið. Er að vísu órannsakað enn, hvort kleift verður með viðráðanlegum tilkostnaði að leggja veg yfir Siglufjarðarskarð, en jafnvel þótt þessi vegur kæmist ekki lengra en í Fljótin, væri þó mikil bót fengin í vegamálunum á þessum slóðum, því að með því að nota mótorbát til flutninga úr Haganesvík til Siglufjarðar og öfugt, er að miklu bætt úr þeirri samgönguþörf, sem sveitirnar þarna eru í, og eins Siglfirðingar. Það sýnist því svo, sem sterk rök hnigi að því, að rétt sé að taka þessa leið alla frá Sauðárkróki til Siglufjarðar í þjóðvegatölu. Skal ég aðeins benda á það, hversu mikla þýðingu það hefir fyrir sveitirnar á þessum slóðum, að þessi leið sé tekin upp í þjóðvegatölu, því að eins, og er geta þær ekki hagnýtt sér sumarmarkaðinn á Siglufirði til nokkurrar hlítar, en þegar vegur er kominn út í Fljót og hægt er að nota mótorbát til flutninga þaðan, er þar með opnaður möguleikinn fyrir þau sveitarfélög, sem þarna liggja að, til að senda nógar vörur á sumarmarkaðinn á Siglufirði, og þetta kemur Siglfirðingum ekki síður að góðu, sem þannig fá ódýrari vörur vegna hins aukna vöruframboðs, sem þá mundi verða.

Í þriðja lagi fara till, okkar fram á að tengja saman þjóðveginn í austanverðum Skagafirði, frá Vatnsleysu í Viðvíkursveit að Héraðsvatnabrú á Gundarstokk. Með því að fá veg lagðan þessa leið, myndi mikið bætt úr samgönguþörf Skagfirðinga austan vatna. Ef litið er á hina breyttu staðhætti í Skagafirði, sem orðið hafa frá því að vegalögin voru sett 1924, og kröfurnar eins og þær eru nú, þá verður ekki annað sagt en að brtt. okkar séu allar mjög nauðsynlegar. Verði þær samþ., má segja, að sæmilega sé séð fyrir vegaþörf í Skagafirði. Að vísu vantar þá enn veg frá Sauðarkróki út með firðinum að vestan, til þess að Skefilsstaðahreppur komist í vegasamband.

Ég sé svo ekki ástæðu til að halda öllu lengri ræðu um þetta nú. Ég hefi aðeins viljað, að þær ástæður kæmu fram, sem liggja bak við brtt. okkar. En við þm. Skagf. væntum þess, að væntanleg ríkisstj. og vegamálastjóri taki till. til greina og taki þær upp í frv. til breyt. á vegalögunum, sem gera má ráð fyrir, að lagt verði fyrir næsta þing.