28.05.1932
Neðri deild: 86. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 608 í C-deild Alþingistíðinda. (3575)

44. mál, vegalög

Halldór Stefánsson:

Það er sjáanlegt eins og sakir standa nú, að mál þetta nær ekki fullnaðarafgreiðslu á þessu þingi. Ég get og fallizt á þá ástæðu hv. samgmn. gegn till. þessum nú, að þær séu ekki nægilega athugaðar í heild, og þar sem vegamálastjóri mun vera að vinna að undirbúningi nýrra breytinga á vegalögunum, þá sé réttara að bíða með afgreiðslu þeirra, þar til þeim undirbúningi er lokið. En ég vil leggja áherzlu á, að þessi undirbúningur verði ekki látinn dragast úr hömlu, svo hægt verði að leggja þessar breyt. á vegal. fyrir næsta þing, því eins og tekið hefir verið fram, hafa kröfurnar um vegakerfi landsins breytzt mjög mikið frá því að vegalögin voru sett 1924.

Úr því að ég á annað borð stóð upp, þá vil ég gera dálitla grein fyrir brtt. þeim, er ég flyt á þskj. 68.

Eins og þjóðvegurinn um Fljótsdalshérað er nú ákveðinn, má kalla, að hann liggi þvert yfir héraðið. En svo ganga aftur álmur út frá honum. Beint framhald af honum liggur til Reyðarfjarðar, og má segja, að sá vegur sé eina sambandið, sem Héraðið hefir við hafnarstað. Önnur álma, sem hugsuð er til sjávar, liggur að Unaós.

Það má segja, að byggðin þarna klofni í tvo dali, Jökuldal og Héraðið, sem liggur beggja megin Lagarfljóts, og efst heitir Fljótsdalur. Þeir, sem búa ofan við þennan þverveg, hafa ennþá ekki fengið bílsamband við aðalbrautina, sem liggur til kauptúnsins, sem þeir verzla við. Till. mínar á þskj. 68 lúta að því, að upphluti héraðs þessa fái veg upp byggðina, til þess að létta undir með íbúunum þar að ná til kaupstaðarins. Þetta er sambærilegt t. d. við þjóðveginn í Eyjafjarðarsýslu. Hann liggur þvert um byggðina og álmur út frá honum inn í héraðið.

Hvað snertir annan þennan veg, álmuna upp Jökuldalinn, þá stendur sérstaklega á um hann. Það er ekki hægt að fara aðra leið til þess að ná vegasambandi milli Norður- og Austurlandsins. Þegar Jökuldalnum sleppir taka við sléttar og greiðfærar heiðar og til þess að ná til þeirra, verður að leggja veg eftir dalnum. Ég býst við, að menn minnist þess, að á síðasta vetrarþingi kom fram stjórnarfrv., samið af vegamálastjóra, þar sem farið var fram á að gera þennan vegarkafla að þjóðvegi, til þess að gera sambandið milli landsfjórðunganna mögulegt.

Ég vildi ekki láta hjá líða að gera þessa stuttu grein fyrir till. mínum, til þess að gera hv. þdm. þær sem kunnastar.