28.05.1932
Neðri deild: 86. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í C-deild Alþingistíðinda. (3576)

44. mál, vegalög

Björn Kristjánsson:

Það er að sjálfsögðu þýðingarlítið að tala mikið um brtt. þær, sem fram eru komnar við vegalögin, þar sem komið er að þinglausnum, enda stend ég ekki upp til þess sérstaklega að mæla með brtt. minni á þskj. 64, heldur miklu fremur til þess að undirstrika það, sem tekið hefir verið fram undir þessum umr., að væntanleg stj. og vegamálastjóri undirbúi breyt. á vegalögunum til þess að leggja fyrir næsta þing. Þetta vildi ég að kæmi skýrt fram.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um brtt. mína. Hún fer ekki fram á að bæta nýjum veg í tölu þjóðvega, heldur að breyta þjóðveginum um Norður-Þingeyjarsýslu þannig, að vegurinn um Öxarfjarðarheiði, sem telja má því nær útilokað, að bílvegur verði nokkurn tíma lagður um, verði lagður niður, en í hans stað tekin í tölu þjóðvega leiðin kringum Melrakkasléttu um Raufarhöfn, svo nefnda Hálsa að Svalbarði, en þar koma leiðirnar saman. þessari leið hefir vegamálastjóri mælt með, því að hún liggur öll um óbyggðir, en leiðin um Melrakkasléttu og Hálsa liggur, eins og kunnugt er, að mestu leyti um sveitir. Fyrir 1924 var tæplega hægt að segja, að þjóðvegurinn snerti NorðurÞingeyjarsýslu. Hann lá þá um Hólsfjöll og snerti aðeins Norður-Þingeyjarsýslu á fárra km. svæði, en með vegalögunum, sem sett voru 1924, var þessu breytt þannig, að nú liggur hann kringum Tjörnes um Kelduhverfi, Öxarfjörð, Öxarfjarðarheiði og Þistilfjörð að Þórshöfn. Við þessa breyt. undu menn vel í svipinn, því þá var enginn bíll kominn í sýsluna og fáa menn byrjað að dreyma um, að það farartæki gæti komið þar til greina. Síðan hefir þetta breytzt. Nú hefir það sýnt sig, að komast má á bílum miklu víðar en nokkur maður hefði þá getað trúað, og nú bíða menn þess með óþreyju, að austur- og vesturhluti sýslunnar verði samtengdir með bílvegi, og þá er ekki um aðra leið að ræða en þá, sem ég nú vil taka upp í þjóðvegatölu. Síðastl. ár varð sú breyt., að póstleiðin var færð af Öxarfjarðarheiði og liggur nú um Melrakkasléttu, og eru ekki líkur til, að hún verði færð aftur. Mælir því allt með því, að þessi vegarkafli verði tekinn í tölu þjóðvega. Að vísu mun þjóðvegurinn eitthvað lengjast við þetta, en þó mun það ekki muna svo miklu, að að út af fyrir sig ætti að standa í veginum, því að það er líka eini möguleikinn til þess að tengja saman austur- og vestursýsluna. Ég vona nú, að hæstv. stjórn, hver sem hún verður, taki vegamálin til alvarlegrar athugunar og undirbúi þau undir næsta þing, og þá að sjálfsögðu taki þessa breyt. með í brtt. sínum.